Karlar deyja frekar en fara til læknis

Fái karlmaður alvarlegan sjúkdóm, er mun líklegra að hann deyi úr honum, en kona sem fær sama sjúkdóm. Þetta gildir um nær alla alvarlega sjúkdóma, að dánartíðni karla sem fá þá er hærri en kvenna sem fá þá.  Þetta á einkum við um karla sem hafa litla menntun, eru í stopulli vinnu eða atvinnulausir. Þar sem karlar eru saman í hópi, til dæmis á vinnustað, gengur þetta betur, segir Svend Aage Madsen, sem er formaður í Samtökum um heilbrigði karla í Danmörku. Vitnað er í hann í grein á vef Danmarks Radio, en það er blaðamaðurinn Susanne Vigsö Grön, sem skrifar hana.

Það þarf að beita öðrum aðferðum við að ná til karla.

Það eru tvennt sem veldur þessu. Í fyrsta lagi, að karlmenn eru ekki nógu duglegir að leita til heilbrigðiskerfinsins og þegar þeir loksins gera það er það orðið of seint. Í öðru lagi eru samskipti karla og heilbrigðiskerfisins ekki nógu góð. „Það er bara ekki rætt við karlmenn á nógu áhrifaríkan hátt“, segir Svend Aage Madsen. Þess vegna þarf að breyta samskiptum karla við grunnþjónustuna í heilbrigðiskerfinu, svo sem starfandi lækna, tannlækna, lyfjafræðinga, sálfræðinga og svo framvegis. Því er að minnsta kosti slegið föstu í skýrslu sem Samtökin um heilbrigði karla hafa látið gera. En í henni er rætt við 30 lykilmenn í danska heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigðiskerfið þarf að laga sig að körlunum

Það er hægt að leggja vinnu í að fá karla til að snúa sér oftar til heilbrigðisþjónustunnar – en það gerist ekki í einu vetfangi, að mati Svend Aage Madsen. „Það er okkar skoðun að það liggi beinna við að fá heilbrigðiskerfið til að laga sig að körlunum, þannig að það nái betur til þeirra“, segir hann. Samkvæmt skýrslunni þarf að heilbrigðisþjónustan að taka upp fleiri leiðir til að ná til karla, svo sem að fara út og leita þá uppi á vinnustöðum, í íbúðahverfum eða á öðrum stöðum þar sem karlar koma saman.

Í endurvinnslunni og á bensínstöðinni

Þetta hefur verið gert með góðum árangri þegar kemur að starfsemi lyfsala, segir Anne Kahn formaður Félags þeirra í Danmörku.  „Við höfum verið með átak, þar sem við fórum út á endurvinnslustöðvar og bensínstöðvar og buðumst til að mæla blóðþrýsting og sykur hjá mönnum. Það heppnaðist mjög vel og margir karlar sýndu þessu áhuga. Við vorum líka í samstarfi við nokkrar líkamsræktarstöðvar og fórum þangað og ræddum um íþróttameiðsl við þá sem voru að æfa. Því var líka vel tekið. Það er ljóst að það er auðveldara að ná til karlanna ef heilbrigðisþjónustan kemur til þeirra“. Anne bindur miklar vonir við svokölluð lyfja-samtöl, sem lyfjafræðingar í Danmörku tóku upp um áramótin. Þau eru hugsuð fyrir þá sem eru með langvinna sjúkdóma og virka þannig að sjúklingi, sem fær til dæmis úrskurð um að hann sé með sykursýki, er boðið uppá samtal um hvernig það er að lifa með sjúkdóminum og hvernig það er að  þurfa að taka lyf alla ævi.

Ritstjórn maí 9, 2016 13:59