Karnabær og byltingin í unglingatískunni

Verslunin Karnabær með tískufatnað fyrir unglinga, var opnuð í maí árið 1966  í Reykjavík. Heiti hennar var tekið frá Carnaby Street í London, þar sem bítlatískan réði ríkjum. Áður en Karnabær var opnaður voru stöku unglingar svo heppnir að eiga foreldra eða aðstandendur sem gátu keypt föt sem voru í unglingatískunni erlendis, en eftir að verslunin var opnuð í höfuðborginni gat allur almenningur keypt hæstmóðins unglingaföt þar.  Þetta var bylting.  Áður en langt um leið voru útibú frá Karnabæ opnuð undir heitinu Epli, á Akranesi, Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Karnabær varð stórt fyrirtæki, sem lét bæði hanna og sauma fatnað. Síðar bættust hljómflutningstæki og snyrtivörur við vöruúrvalið. Þegar mest var störfuðu um 100 manns hjá fyrirtækinu. Það var Guðlaugur Bergmann sem ásamt öðrum stofnaði Karnabæ. Á 10 ára afmæli Karnabæjar sagði hann í viðtali við Morgunblaðið að samkeppnin í tískubransanum væri hörð. Verslunin var áberandi í þjóðlífinu og auglýsti mikið. Þegar Guðlaugur var spurður hvers vegna, svaraði hann með sögu sem hann hafði heyrt sagða af sölustjóra hjá Coka Cola.

Hann var á ferð yfir Atlantshafið í flugvél og hitti blaðamann sem spurði hvers vegna í ósköpunum þeir hjá Coka Cola væru alltaf að auglýsa, því það drykkju hvort eð er allir Coka Cola. Sölustjórinn svaraði einfaldlega:“ Af sömu ástæðu og flugstjórinn slökkti ekki á hreyflinum þegar við vorum komnir í loftið“.

Guðlaugur sagði að það væri þannig með sölu á tískufatnaði að annað hvort værirðu með og fylgdist með nýjungum eða þú gætir hreinlega hætt. Karnabær er löngu horfinn og húsið sem verslunin var lengst af í, nálægt horninu á Lækjargötu og Austurstæti brann til grunna fyrir nokkrum árum, en ný „gömul“ hús hafa verið reist á svæðinu í staðinn.

Ritstjórn júní 24, 2014 18:26