Kjúklingur með pasta og ostasósu

(mynd eldhússögur)

Það er oft erfitt fyrir afa og ömmur að vita hvað barnabörnunum finnst gott að borða. Það veldur oft nokkrum heilabrotum hvað eigi að hafa í matinn fyrir yngstu kynslóðina sérstaklega ef þau eiga að fá að að gista. Það er ekki endalaust hægt að hafa bara pitzzu í matinn. Hún Dröfn Vilhjálmsdóttir hefur haldið úti vefnum Eldhússögur og á vefnum er að finna fjölda skemmtilegra uppskrifta. Þeirra á meðal er þessi einföldu uppskrift að barnvænum kjúklingi sem tekur ekki langan tíma að gera. Börn eru oft hrifin af því sem einfalt er.

Barnvænn kjúklingur

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • smjör til steikingar
  • 100 gr rjómaostur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rifinn ostur
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • salt og pipar
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í litla bita. Því næst er smjörið og kjúklingurinn sett á pönnu, kjúklingurinn saltaður og pipraður og hann síðan steiktur í örskamma stund. Þá er matreiðslurjóma og mjólk hellt út á, piparostur skorinn í litla bita og honum bætt út í ásamt rjómaosti og rifnum osti. Þá er kjúklingakrafti bætt út í. Látið malla á vægum hita og hrært í sósunni öðru hvoru þar til osturinn er bráðnaður. Þá er sósan smökkuð til með kryddi og henni svo blandað saman við pastað. Borið fram með hvítlauksbrauði.

Ritstjórn júní 15, 2018 10:29