Klassakonur ilma alltaf eins

Heiðar Jónsson snyrtir.

Heiðar Jónsson snyrtir.

„Mestu klassakonur heims nota sama ilminn allt lífið,“ segir Heiðar Jónsson snyrtir, þegar Lifðu núna spyr hann hvort  konur eigi að skipta um ilmvatnstegund eftir breytingaskeiðið.  Hann segir það mýtu að konur eigi að breyta um ilm á þessum tímamótum en því hefur verið haldið fram að hormónabreytingar sem verða í líkamanum leiði til þess að líkamslyktin breytist og því sé rétt að breyta um ilm. Það eru hins vegar fáir ilmir sem eru framleiddir árum og áratugum saman þeir eru þó til,  sennilega er Channel no 5 og ilmir frá Guerlain þeirra þekktastir. „Ilmir sem kenndir eru við frægar fyrirsætur, söngkonur eða annað fægt fólk eiga sér yfirleitt stuttan líftíma, einungis nokkur ár, þeir sem fara að nota þá verða því að búa sig undir að skipta fljótlega. Allt sem tengist frægum persónum á sér stuttan líftíma,“ segir Heiðar. „Ég held hins vegar að „Ilmirnir hans Heiðars“ eigi eftir að lifa árum og áratugum saman, enda eru þeir framleiddir á sama hátt og klassískir franskir ilmir,“ bætir hann við og hlær. Heiðar segist ráðleggja konum sem finnst ilmur yfirþyrmandi að nota bodylotion á daginn í sama merki og ilmurinn sem þær nota á kvöldin. Eða nota eau de Toilette á daginn og perfume á kvöldin. Ilmvötn eru flokkuð eftir því hve styrkleiki ilmolíunnar í þeim er mikill.

  • Perfume extract: 20–40% ilmolía
  • Eau de parfume:10–30% ilmolía
  • Eau de toilette: 5–20% ilmolía
  • Eau de cologne:2–5% ilmolía

Eftir því sem styrkur ilmolíunnar er meiri, því þéttari er ilmurinn og jafnvel þyngri. Þau ilmvötn sem hafa lægra hlutfall af ilmolíu eru oftast léttari. Því sterkari sem ilmurinn er, því lengur endist hann á húðinni.

Einn frægasti ilmur allra tíma.

Einn frægasti ilmur allra tíma.

 

 

Ritstjórn september 2, 2015 09:27