Konur sem fá ekki vinnu sökum aldurs eða útlits

„Bara það eitt að fyritæki svari ekki atvinnuumsóknum finnst mér argasti dónaskapur. Það tekur nokkrar sekúndur að svara einni slíkri. Mér finnst það skortur á skynsemi að gefa fólki ekki einu sinni séns óháð aldri. Nei það er bara hunsað. En takið eftir að á sama tíma þarf fólk að senda ferilskrá með ævisögunni sem það veit svo ekkert hvar lendir. Ég skora á atvinnurekendur að endurskoða sín mál hvað þetta varðar,“ segir Ester Gísladóttir í kommentakerfi DV. Ester er þar að kommentara á viðtal Lifðu núna við Ásgerði Guðbjörndsdóttur sem upplifiði það sextug að sækja um á annað hundrað störf og fá lítil sem engin viðbrögð við umsóknum sínum. DV birti úrdrátt úr viðtalinu.

Linda Einars Bjarnadóttir kommentar sömuleiðis á viðtalið við Ásgerði á DV vefnum. „Aldurstengdir fordómar á vinnumarkaði er þekkt fyrirbæri um heim allan. Þetta byrjar upp úr 45 eða svo og versnar. Það er fullt af konum þarna úti sem fá ekki störf sakir aldurs eða útlits, já útlits, óþægileg staðreynd. Ég satt að segja hef meiri áhyggjur af þessu en launamismunun sem er ekki alveg eins hræðileg og sumir telja, en þó nægileg til þess að leiðrétta,“ segir Linda.

„Þessi staða fólks, á góðum aldri, á atvinnumarkaði er búin að vera staðreynd í íslensku þjóðfélagi til fjölda ára. Þrátt fyrir það virðist einhverjum detta í hug að hækka lífeyrisaldur fólks upp í 70 ár. Ekki aðeins fæddist hugmyndin að þeirri breytingu heldur er verið að vinna að henni ! Hvað í ósköpunum á fólk sem missir atvinnuna, kannski á bilinu 50-60 ára, að gera næstu 10 eða jafnvel 20 árin í þeirri stöðu? Og þá meina ég tekjulega,“ segir Sigrún Höskuldsdóttir.

Hjördís Vilhjálmsdóttir segir: „Endalaust og endalaust er ritað og rætt um allskonar mismunun og fordóma. Og ávallt fordæmt og það með réttu. En það er helst bara hamrað á að ekki skuli mismunað og fordæmt þegar kemur að þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kyni og kynhneigð.  Það þarf að setja lög sem skikka öll fyrirtæki til þess að taka visst hlutfal fólks í vinnu á mismunandi aldri sem og visst marga lífeyrisþega. Eðlilegast að miða við það hlutfall sem viðkomandi aldurshópur telur í samfélaginu. Sama á við um lífeyrisþega. Þetta rugl gengur ekki upp og ekki síst þegar rætt er meir og meir um að hækka skuli töku ellilíeyris.  Eins þarf að setja einhver lög sem gera fyrirtækjum mjög erfitt að segja fólki upp sem hefur vissan starfsaldur, segjum 10 ár. Auk þess er algjört lágmark að allir opinberir aðilar taki það fólk í vinnu sem sækir um í stað þess að stuðla að því að auka útgjöld til lífeyris- og atvinnuleysisbóta,“ sagði Hjördís í kommentakerfi DV.

 

Ritstjórn febrúar 28, 2017 11:58