Langtímaatvinnuleysi mest á meðal eldra fólks

Flestir í hópi langtímaatvinnulausra er fólk komið yfir miðjan aldur. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýútkominni skýrslu Vinnumálstofnunar um Stöðu og horfur á vinnumarkaði á árunum 2016 til 2018. „Langtímaatvinnuleysi hefur minnkað hratt undanfarin misseri frá því það var mest árin 2011 og 2012 um 36%. Á árinu 2015 voru að jafnaði um 22% atvinnulausra langtímaatvinnulausir, eða um 1.150 að jafnaði af þeim 5.400 sem að jafnaði voru á atvinnuleysisskrá. Ekki er mikill munur á hópum hvað langtímaatvinnuleysi varðar að öðru leyti en því að þeir eldri eru í meira mæli langtímaatvinnulausir en fólk í yngri aldurshópum. Þannig var langtímaatvinnuleysi um 33% meðal fólks á aldrinum 50 ára og eldra, um 22% meðal fólks á aldrinum 30-49 ára og 13% í yngsta aldurshópnum, 28-29 ára,“ segir í skýrslunni.

Bókvitið ekki í askana látið

Önnur forvitnileg staðreynd kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar en hún er sú að bókvitið verður ekki endilega í askana látið. „Fram hefur komið í greiningu Vinnumálastofnunar á atvinnuleysistölum að atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra hefur minnkað hægar undanfarin misseri en meðal fólks með minni menntun að baki og þá einkum meðal háskólamenntaðra kvenna. Stafar það annars vegar af því að háskólamenntuðum á vinnumarkaði fjölgar hlutfallslega meira en öðrum þegar nýir árgangar með mikla menntun að baki koma inn á vinnumarkaðinn, en þeir sem hætta vegna aldurs hafa að jafnaði minni menntun að baki. Hins vegar hefur störfum fyrir háskólamenntaða ekki fjölgað að sama skapi. Þeir sem lokið hafa háskólamenntun og margskonar menntun á framhaldsskólastigi standa þó eftir sem áður betur að vígi á vinnumarkaði og atvinnuleysi meðal fólks með framhalds- og háskólamenntun er lægra en þeirra sem litla menntun hafa þó svo munur milli menntahópa fari minnkandi.“

Hagstofan mælir meira atvinnuleysi

Vinnumálastofnun telur að atvinnuleysi á síðasta ári hafi verið 3 prósent að jafnaði en Hagstofan sem líka heldur utan um tölur um atvinnuleysi  telur að 4,2 prósent vinnuaflsins hafi verið atvinnulaust. Samkvæmt Hagstofunni voru um 8.100 manns án atvinnu á árinu, eða 2,700 fleiri en koma fram í tölum Vinnumálastofnunar. Í skýrslunni segir að það stafi af ólíkum aðferðum og ólíku eðli þeirra gagna sem notuð eru til að mæla atvinnuleysi. „Munar þar mestu um að í könnun Hagstofunnar mælist alla jafna allnokkurt atvinnuleysi meðal ungs fólks en ungt fólk á sjaldnast mikinn bótarétt og er oft atvinnulaust um það skamman tíma að það skráir sig ekki á atvinnuleysisskrá og kemur því ekki fram í tölum Vinnumálastofnunar. Sama er að seg ja um þá sem hafa klárað bótarétt, þeir eru almennt ekki í tölum Vinnumálastofnunar en mælast hjá Hagstofunni. Á móti kemur að fólk sem er atvinnulaust að hluta á móti hlutastarfi telst með hjá Vinnumálastofnun en ekki hjá Hagstofunni.“

Ritstjórn janúar 12, 2016 10:32