Launamunur kynjanna kemur fram ævina á enda

Launamunur karla og kvenna er gömul saga og ný. Nú hefur verið gerð skýrsla um kynjaða hagstjórn sem sýnir svart á hvítu að þessi munur heldur áfram ævina á enda. Lokaskýrsla velferðarráðuneytisins um kynjaða hagstjórn, sem fjallar um hjúkrunarheimili var birt í dag en þar segir:

Margvíslegur munur er á högum og aðstæðum karla og kvenna á hjúkrunarheimilum, hvort sem í hlut eiga íbúar eða starfsfólk. Fjárhagslega bera konur að jafnaði minna úr býtum, hvort sem litið er til launa eða lífeyris“.

Á vef ráðuneytisins kemur fram að heildarframlög til hjúkrunarheimila á fjárlögum þessa árs eru um 23 milljarðar króna, en þar af renna tæplega 19 milljarðar til þeirra hjúkrunarheimila sem verkefni ráðuneytisins tók til.

Í skýrslunni er dreginn fram ýmis lýðfræðilegur kynjamunur en einnig bent á mun sem tengist starfsvali, atvinnuþátttöku og launum kynjanna. Fram kemur að konurnar bera að jafnaði minna úr býtum fjárhagslega en karlarnir og eins benda skýrsluhöfundar á að umönnun aldraðra sem aðstandendur sinna lendi frekar á konum. Því megi því segja að ákveðið misvægi fylgi kynjunum alla tíð, frá upphafi til æviloka.

Ýmsar ákvarðanir stjórnvalda geta haft áhrif til þess að draga úr kynjamun, t.d. hvað varðar eftirlaun og greiðsluþátttöku íbúa á hjúkrunarheimilum. Í skýrslunni er settar fram tillögur um aðgerðir til að draga úr misrétti í samræmi við niðurstöður verkefnisins. Meðal annars er lagt til að stefna í málefnum aldraðra verði endurskoðuð þannig að kynjasjónarmið verði hluti af henni og að sett verði skilyrði í þjónustusamninga við hjúkrunarheimili um að þau setji sér jafnréttisáætlanir“.

 

Ritstjórn október 3, 2014 17:31