Lestu bækurnar sem aldrei var tími til að lesa

Margir sem eru komnir á eftirlaun, eru vissir um að þeirra bíði endalaust frí og afslöppun.  En sú er ekki alltaf raunin.  Þó bandarískar rannsóknarniðurstöður séu mismunandi, sýna margar þeirra að fólk sem fer á eftirlaun,  fer eftir nokkur ár að eiga erfitt með hreyfingar og ýmis viðvik sem þarf sinna daglega. Margir verða líka einmana og þunglyndir. En það eru til leiðir til að vinna gegn þessum vanda. Regluleg hreyfing og umgengni við aðra þýðir að  andleg og líkamleg heilsa hjá mörgum sem eru farnir að eldast, verður betri.  Vandinn sem menn standa frammi fyrir er ekki sá, að þeir séu hættir í fullu starfi, heldur að hafa ekkert að gera þegar þeir eru komnir á eftirlaun. Það þarf ekki bara að skipuleggja fjármálin, þegar við förum á eftirlaun.  Menn þurfa einnig að skipuleggja hvað þeir ætla að hafa fyrir stafni.  Hér koma 10 hugmyndir sem geta hjálpað:

Ferðalög. Ef þú hefur ekki mikil auraráð, geturðu orðið ferðamaður á heimslóðum. Farðu í ferðalag í borginni eða bænum þínum. Prófaðu veitingahús sem þú hefur aldrei farið á. Skrepptu á söfn, eða skoðaðu staði sem erlendum ferðamönnum finnst gaman að skoða, Sólfarið í Reykjavík til dæmis, eða útsýnið frá Perlunni. Ef þú getur, fáðu vin eða vinkonu með þér.

Lærðu eitthvað nýtt. Það er annað hvort hægt að stúdera eitthvað uppá eigin spýtur til dæmis á netinu, eða bregða sér á námskeið. Sumir læra að mála, eða spila á hljóðfæri og aðrir fara á matreiðslunámskeið. Málanámskeið og tölvunámskeið eru einnig vinsæl. Félag eldri borgara í Reykjavík býður til dæmis uppá slík námskeið.

Kenndu á námskeiði. Það er óþarfi að láta þekkingu og reynslu sem við höfum viðað að okkur í lífinu að ryðga og gleymast. Rifjaðu upp og taktu að þér að kenna á námskeiði. Það eru ýmsir sem sækjast eftir sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir að gera slíkt. Félög eldri borgara og Háskóli þriðja æviskeiðsins byggja beinlínis á þeirri hugmynd, að fólk með mikla þekkingu deili henni með öðrum.

Leiðbeindu börnum. Hvort sem það eru þín eigin barnabörn, eða bara börn sem búa í nágrenni við þig, þá er það mjög gott fyrir heilann að taka að sér að aðstoða þau við heimanámið. Það er alltaf upplífgandi að umgangast börn. Það bætir heilsuna og léttir lundina. Nokkrir skólar í Reykjavík hafa óskað eftir fullorðnu fólki til að leiðbeina börnum. Félag eldri borgara í  Reykjavík og Korpúlfar í Grafarvogi, geta komið fólki í sambandi við skólana.

Farðu í hlutastarf. Þó við séum hætt þáttöku á vinnumarkaðinum, þýðir það ekki að við getum ekki fengið neitt að gera.  Ef menn leita vel, þá er eitt og annað í boði, sérstaklega ef menn vilja taka að sér hvað sem er.  N1 hefur óskað eftir eldra fólki í vinnu, Flugleiðahótelin og Bykó hafa einnig ráðið eldra fólk í vinnu. Það er ákveðið frítekjumark fyrir þá eldri borgara sem vilja vinna hlutastarf, um 100 þúsund krónur á mánuði. Það er hægt að hafa slíkar tekjur, án þess að það skerði eftirlaunin frá almannatryggingum.  Það mun að vísu breytast ef nýtt frumvarp til almannatrygginga verður að lögum frá Alþingi.

Taktu heimilið í gegn. Þegar menn eru í fullri vinnu, skjóta þeir oft á frest ýmsum viðgerðum og endurbótum á heimilinu. Þegar fólk er komið á eftirlaun og farið að vera meira heima, er loksins kominn tími til að sinna þessum verkefnum.  Ef þú hefur þekkinguna sem þarf til að gera þetta, drífðu þá í því.  En vanti þig þekkingu, þá er hægt að læra ýmislegt smálegt, eins og að mála og endurnýja húsgögn. Stundum er til dæmis boðið uppá námskeið í viðgerðum á gömlum húsgögnum.

Ræktaðu fjölskylduna.  Það er augljóst að flestir vilja eyða meiri tíma með fjölskyldunni þegar þeir eru komnir á eftirlaun.  En ef menn hafa raunverulegan áhuga á því, verður að gera það að forgangsverkefni.  Hafðu reglulegt samband við börn og barnabörn. Það þarf að skipuleggja hlutina með góðum fyrirvara. Finna tíma til að borða saman, skreppa saman í frí, eða njóta annarra viðburða saman.

Verðu tíma með gömlum vinum. Alveg eins og það þarf að skipuleggja tíma til að rækta fjölskylduna, þarf að rækta gamla vináttu. Skipulegðu ferðalög til að hitta gamla vini, eða skipulegðu matarboð einu sinni í mánuði, með vinum sem búa í nágrenni við þig.  Á sama hátt þarf að huga að nýjum vinum, með því að taka þátt í félagsstarfi eða sækja námskeið.

Lestu bækur. Gerðu lista yfir bækur sem þig hefur alltaf langað til að lesa, en hafðir ekki tíma til að gera. Það má líka gera lista yfir bækur sem þú átt, og langar að lesa aftur. Taktu svo eina bók til að lesa á nokkurra vikna fresti. Ef þú ert kominn á eftirlaun er líka upplagt að fá fólk til að stofna bókaklúbb til að lesa bækur og ræða um þær.

Settu þér markmið í hreyfingu.  Það er aldrei of seint að setja sér markmið um að hreyfa sig meira. Margir hafa meiri tíma fyrir hreyfingu þegar þeir eru komnir á eftirlaun. Hlauptu maraþon, eða taktu ákvörðun um að ganga einn hring í hverfinu þínu með vinum þínum, á hverju kvöldi.

Ritstjórn september 27, 2016 12:02