Lífeyrissjóðunum var rænt

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman skrifar

Lífeyrissjóðum okkar á almenna vinnumarkaðinum var rænt til að niðurgreiða skuldbindingar Tryggingastofnunar ríkisins til eftirlaunaþega.

Þegar ég kom heim úr framhaldsnámi í hótelfræðum í Róm, gerðist ég félagi í Félagi framreiðslumanna og sat í stjórn félagsins þegar lífeyrissjóður FF var stofnaður. Þessi sjóður er núna hluti af Stafir lífeyrissjóði. Tilgangur sjóðsins eins og allra lífeyrissjóða  var að safna í sjóð til að bæta félagsmönnum upp lágar greiðslur frá TR þegar kæmi að töku eftirlauna.

Síðar settist ég hinumegin við borðið og og starfað með samtökum hótel og veitingamanna SVG (nú SAF) bæði sem formaður og fulltrúi SVG í samninganefnd Vinnuveitenda sambands Íslands ( nú SA ). Sem slíkur samdi ég við matreiðslumenn, framreiðslumenn, hljómlistamenn og starfsfólk í veitingahúsum um kaup og kjör. Í öllum þeim samningum sem ég tók þátt í var það alveg ljóst að greiðslur atvinnurekenda til lífeyrissjóðanna voru hluti af launum. Sem dæmi, ef samið var um 10% launahækkun gat skiptingin verið þannig:  1% var hækkun á greiðslu atvinnurekenda í lífeyrissjóð 2% í orlofs- og sjúkrasjóð og 7% í launaumslagið. Samtals 10%. Að ofansögðu á það að vera 100% ljóst að allar greiðslur í lífeyrissjóði á almenna vinnumarkaðinum hafa alltaf verið og eru enn, greiðsla á launum. Almennu lífeyrissjóðirnir eru í eigu launþega, ekki atvinnurekenda eða ríkisins.

Mig rak  í rogastans þegar ég hóf töku eftirlauna, ég nota aldrei orðið ellilífeyrir, og samanlögð greiðsla frá TR og lífeyrissjóði VR er rétt rúmar 200.000 þúsund eftir skatta á mánuði. Ég hef greitt í lífeyrissjóð í 45 ár og skatta síðan 1958 og er enn að.

Ég leitaði eftir upplýsingum frá Matvís sem vísaði málinu áfram til ASÍ um hvenær kerfinu hefði veri snúið upp í andhverfu sína þ.e.a.s. að greiðsla frá TR ætti að bæta upp greiðslur frá lífeyrissjóðunum og að smám saman ættu lífeyrissjóðirnir að taka við öllum greiðslum til okkar í almenna lífeyrissjóðskerfinu. Ég fékk svör en ekki útskýringar.

Nú liggur fyrir frumvarp til laga um  breytingu á lögum um almannatryggingar. Endurskoðunin er afrakstur endurskoðunar löggjafarinnar sem staðið hefur yfir frá 2005. Þessu máli hefur verið flækt í kerfinu í 11 ár með allskonar orðagjálfri til að tryggja það að við fáum nánast enga úrbót

Umsögn FEB og LEB um frumvarpið á að vera einföld, og í anda þess sem ég tel að sé  krafa okkar flestra úr almenna lífeyrissjóðskerfinu sem er;

  • Greiðslur frá TR fylgi lámarkslaunum í landinu
  • Að tekjutenging verði afnumin nú þegar.

Hvað þýðir afnám tekjutenginga?

Að afnema skerðingu lífeyris almannatrygginga vegna:

  1. greiðslu úr lífeyrissjóði
  1. vegna atvinnutekna
  1. vegna fjármagnstekna.

Það eina sem þarf til að ná þessu fram er samstaða eldri borgara um kjör sín. Við eigum að gera kröfu til að algjör samstaða ríki milli stjórnar FEB og LEB um kjör okkar og að kröfur séu settar fram í okkar þágu.  Það á að heyra sögunni til að við lesum grein eins og í síðasta tölublaði FEB sem heitir;

Endurskoðun almannatrygginga – Sýnd veiði en ekki gefin

Þar er fjallað er um frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um endurskoðun almannatryggingalaga. Í lok greinarinnar segir.

Mikilvægt er  líka ná betri samstöðu um helstu þætti tillagna nefndarinnar meðal eldri borgara. Í því sambandi þarf að samræma skoðanir Félags eldri borgara í Reykjavík og Landsambands eldri borgara, en LEB telur tillögurnar framfararskref í lífeyrismálum landsmanna, en FEB hefur hins vegar ýmislegt við þessar tillögur að athuga“.

Við þurfum ekki nýtt stjórnmálaafl. Við þurfum samstöðu  um kjör okkar.

Ef þessar kröfur okkar nást ekki fram með samningum, þurfum við að fara í mál við ríkið um réttmæti tekjutengingar.

 

 

 

Ritstjórn júlí 28, 2016 09:01