Lífið fyrir tíma nútímaþæginda

Það er hægt að gera ýmislegt þó nú gangi yfir suðvesturhornið sólarlausasta sumar í 100 ár. Ef hann hangir nokkurn veginn þurr, má bregða sér með börn og barnabörn í Árbæjarsafn, sem heldur á sunnudaginn fjölskyldusmiðju undir heitinu Verk að vinna. Þar býðst börnum og fjölskyldum þeirra að taka þátt í smiðjum sem ganga út á að kynnast starfsháttum fyrri tíma.

Hvernig var lífið fyrir tíma nútímaþæginda eins og rennandi vatns úr krönum, þvottavéla og ryksuga? Ef þig langar að komast að því þá skaltu koma í Árbæjarsafn á sunnudag og prófa að bera vatn eins og vatnsberar gerðu, sópa með strákústi, sækja í eldivið og leggja á borð fyrir prestakaffi á sunnudegi.

Allir velkomnir sem vettlingi geta valdið. Heitt á könnunni í Dillonshúsi og heimilislegar veitingar.

Dagskráin stendur frá 13-16, en safnið er opið 10-17. Ókeypis aðgangur fyrir börn, eldri borgara og öryrkja.

Árbæjarsafn er hluti af Borgarsögusafni, eitt safn á fimm frábærum stöðum.

 

Ritstjórn júlí 5, 2018 13:33