Lifir lífinu þrátt fyrir blankheit

Barnabörnin eru fjársjóður

Hrafnhildur með næst yngsta barnabarnið sitt Huldísi Björgu

Ég neita að hætta að lifa lífinu“, sagði Hrafnhildur Einarsdóttir á fundi hjá Gráa hernum á dögunum.  „það eru alltof margir sem leggjast upp í sófa og gefast upp, ég þekki svoleiðis“.  Hrafnhildur sem var einstæð fjögurra barna móðir á  yngri árum, vann í fiski um margra ára skeið, en missti heilsuna og er öryrki.  Börnin hennar eru uppkomin og barnabörnin eru samtals 16.  Á næsta ári verður hún 67 ára og þá munu tekjur hennar lækka um 20-30.000 krónur.  Lifðu núna spurði hana hvernig hún færi að því að lifa lífinu af svo litlum tekjum.

Góða skapið hefur haldið henni á floti

„Það er ekki í boði að leggjast með tærnar upp í loft og maður getur alltaf þakkað fyrir eitthvað. Guð gaf mér gott skap, ég er yfirleitt glöð og hláturmild. Góða skapið hefur haldið mér á floti“, segir Hrafnhildur. Hún segir að gigt hafi verið landlæg í hennar ætt  og það hafi ekki hjálpað sér að vinna í 22 ár í fiskvinnslu. „Ég var handflakari, vann með eintómum körlum og þurfti alltaf að vera best, fljótari en þeir og betri í nýtingu“.  Við gigtina bættist svo sjaldgæfur sjúkdómur, sem kallast ME, en hann veldur því að fólk örmagnast við áreynslu.  Hrafnhildur þarf því að passa að reyna ekki of mikið á sig og segir að það geti verið erfitt. „Sérstaklega þegar það er gaman“.

Söngurinn gefur henni mest

Í gönguferð með félögum í París

Í gönguferð með félögum í París

Hún segir að það sé margt hægt að gera þó fólk finni til.  Hún syndir reglulega og gengur og tekur þátt í klúbbastarfi af ýmsu tagi.  Svo er hún með veiðidellu.  „Mér finnst ekkert vit í öðru en að gera allt sem mér þykir skemmtilegt“, segir hún. „Ég fer ekki í dýrar utanlandsferðir en held mig við þær ódýru. Ég veiti mér ýmislegt, en kaupi mér ekki föt í dýru búðunum,  en keypti  fínan sumarfrakka um daginn í verslun Rauða krossins á 1500 krónur. Ég fer út að borða og á kaffihús, en spara í mat heima á móti. Ég er í félagsskap fyrir einhleypa sem heitir París.  Þar hef ég eignast marga góða vini og við förum í leikhús, bíó, ferðalög,  göngur, tónleika og margt fleira“. En það sem gefur henni mest er söngurinn „Ég er í Mánakórnum og hef verið þar í mörg ár“.

Hvað gerir blessað fólkið?

Hrafnhildur segir að mánaðarlaun hennar „lafi þetta í 200.000 krónum eftir skatt“. Þær megi ekki minni vera, en muni líklega lækka þegar hún fer á eftirlaun 67 ára. „Ég veit ekki alveg hvernig þetta verður, það kemur bara í ljós.  Ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því fyrirfram.  Hver veit nema maður fái eitthvað að gera? Annars sýnist mér eldra fólki ýtt til hliðar á vinnumarkaðinum þegar vel árar í efnahagslífinu. Svo er fólki sagt upp störfum um fimmtugt. Hvað gerir þetta blessað fólk á meðan það  bíður eftir að verða 67 ára og komast á eftirlaun. Þetta er rosalega langur tími og menn fá ekki atvinnuleysisbætur nema í tvö og hálft ár“.

Hrafnhildur er yfirleitt í góðu skapi

Hrafnhildur er yfirleitt í góðu skapi og hér er hún í æfingabúðum Mánakórsins á Nesjavöllum

Handavinnuhópurinn til Dublin

Hrafnhildur segist hafa keypt sér farmiða á handavinnusýningu í Dublin sem verður haldin í október. „Ég skellti mér á farmiða til að fá nógu ódýrt sæti“, segir hún. Þær ætla að fara nokkrar saman úr handavinnuhópnum sem hún er í. „Þær sem keyptu farmiðann viku síður þurftu að borga 10.000 krónum meira fyrir hann“.  Handavinnuhópurinn hefur setið og prjónað í allan vetur en hann hefur aðstöðu í húsnæði Sjálfsbjargar. „Á sumrin flytur hópurinn sig í sumarbústað Sjálfsbjargar við Elliðavatn og prjónar þar“, segir hún ánægð.

Getur veitt í rúmlega 30 vötnum

Barnabörn Hrafnhildar eru 10, en svo eru 6 „bónusbörn“ sem hafa bæst við fjölskylduna sem hún lítur á sem sín eigin. „Jólin eru erfið, maður skilur engan útundan“, segir hún.  En hún reynir að gefa eitthvað af handavinnunni sinni í jólagjafir.  Á þessu ári hafi hún hins vegar skipt um gír og ákveðið að prjóna föt á sjálfa sig, sem veitti ekki af.  En sumarið bíður og þá fer Hrafnhildur að veiða. Hún segist vera með veiðidellu og aðspurð hvort það sé ekki dýrt, segir hún vin sinn kaupa fyrir sig veiðikort á vorin, á 3.500 krónur hjá einu verkalýðsfélaginu, en það kostar annars helmingi meira annarsstaðar.. „Út á það get ég veitt í rúmlega 30 vötnum um allt land“, segir hún glöð í bragði og ætlar að halda áfram að njóta lífsins, enda hafi menn bara „ekki  leyfi til þess að leggja árar í bát“, eða eins og hún segir, „ Guð gaf mér lífið til að lifa því og það ætla ég að gera“.

 

Ritstjórn maí 6, 2016 14:28