Frumkvöðlar líka á sjötugsaldri

María Þorgeirsdóttir er framkvæmdastjóri frumkvöðlasetursins INNOVATION HOUSE á Eiðistorgi og veit vel hvers konar dínamík kraumar þegar saman kemur frjó hugsun og kraftur. Sá kraftur segir hún að myndist ekki hvað síst  þegar saman kemur fólk af báðum kynjum á ólíkum aldri. “Það hefur sýnt sig að eftir því sem flóran er fjölbreyttari verður umhverfið kraftmeira,” segir María. Hún var um árabil umsjónarmaður meistaranámsins á Bifröst en eftir það fór hún að vinna hjá Klaki nýsköpunarmiðstöð þangað sem sprotafyirtæki gátu leitað eftir aðstoð; tekið þátt í Viðskiptasmiðju fyrir fumkvöðla og haft aðstöðu. Þaðan fór hún að vinna fyrir Innovation House svo reynsla hennar í frumkvöðlaheiminum er töluverð. Á meðan hún var enn hjá Klaki sá hún um Seed Forum Iceland, stóra ráðstefnu frumkvöðla þar sem hún þurfti að útvega áhugaverða fyrirlesara og einn þeirra var var Jón von Tetzchner. Hún fékk Jón til að koma og halda fyrirlestur á ráðstefnunni og upp úr því hófst samstarfið við Jón.

Jon von Tetzchner

Stofnandinn 

Jón von Tetzchner er Íslendingur að hálfu en á norskan föður. Jón ólst upp á Íslandi til tvítugs, varð stúdent frá MR og hélt eftir það til Noregs til frekara náms í tölvunarfræðum.

Að loknu því námi stofnaði hann netvafrann Opera sem vakti mikla athygli og óx gríðarlega á skömmum tíma en nú er Opera vafrinn í eigu Kínverja. Nýir fjárfestar í Opera höfðu aðrar hugmyndir en Jón varðandi framtíð vafrans og þá seldi Jón sinn hlut og flutti til Bandaríkjanna. Skömmu eftir að hann kom þangað stofnaði hann netvafrann Vivaldi þar sem hann gat látið eigin hugmyndir vaxa og dafna áfram. María segir Jón vera mikinn hugsjónamann og eldhuga og maður eins og hann skipti miklu máli fyrir Íslendinga. Frumkvöðlasetrið Innovation House sé hugmynd Jóns um það hvernig hann gæti hjálpað til á Íslandi eftir hrunið. Hann er sjálfur frumkvöðull og hugsaði með sér að það væri eitthvað sem hann kynni og gæti þannig hjálpað öðrum frumkvöðlum. Á þann hátt nyti Ísland góðs af. 

Jón hafði lengi haft hug á að stofna frumkvöðlasetur á Íslandi og eftir að hafa leitað um stund fann hann heppilegt húsnæði á Eiðistorgi. María tók að sér að sjá um reksturinn og frá því í apríl 2014 hefur hún gegnt starfi framkvæmdastjóra setursins og hún er einnig starfsmanna- og skrifstofustjóri Vivaldi á Ísland.

Alls konar fólk – líka frumkvöðar á sjötugsaldri

Í frumkvöðlasetri eins og Innovation House er kraumandi kraftur þar sem nýjar hugmyndir fá vængi.

«Við leggjum áherslu á að hér vinni hlið við hlið alls konar fólk,” segir María. Nú eru 24 fyrirtæki í frumkvöðlasetrinu og eru það frumkvöðlar á þrítugsaldri allt upp í frumkvöðla á sjötugsaldri. Starfsemin hefur gengið svo vel að ákveðið hefur verið að stækka og búa til meira pláss fyrir enn fleiri frjóa huga. Langflest fyrirtækin sem hafa fengið aðsetur í Innovation House eru hugbúnaðarfyrirtæki, enda eru þau í forgangi. Í seinni tíð hafa ferðaþjónustusprotar í auknum mæli sótt á. María segir það vera eðlilegt svar við geysilegri fjölgun ferðamanna á Íslandi. Þá spretti upp kraftmikil fyrirtæki með hugmyndaríku fólki með frábærar hugmyndir. Og þá vanti oft aðstoð fyrstu skrefin. 

Markmiðið er að styðja við bakið á sprotum

“Fyrirtæki hafa komið og farið hér hjá okkur í Innovation House en hugmyndin er að þegar sprotarnir eru komnir á legg fari þeir annað og rými til fyrir nýjum sprotum.

Hver sem er getur sótt um að fá aðstöðu á setrinu en skilyrðið er að þetta séu sprotafyrirtæki í vexti. Allar hugmyndir eru skoðaðar og metnar. Af því að Innovation House er hugsað fyrir fyrirtæki sem eru að taka sín fyrstu skref er leigan sanngjörn. Okkar stuðningur felst í því að bjóða upp á samfélag frumkvöðla, þar sem sprotarnir geta hjálpast að, miðlað hugmyndum og notið félagsskapar hvers annars á milli þess sem þeir einbeita sér að eigin verkefnum.  Sum fyrirtækin hafa verið með okkur frá byrjun og nú er eitt þeirra að  fara frá okkur. Það hefur verið svo ánægjulegt að sjá það fyrirtæki vaxa og dafna. Þetta fyrirtæki er reyndar ekki að fara langt heldur í annað húsnæði á okkar vegum hér á Eiðistorgi. Plássið sem losnar hér getur þá nýst fyrir nýja sprota.” 

Öll aðstaða í Innovation House er fjörgandi og þægileg.

Annað Innovation House í Magnolia 

Í Magnolia, sem er fallegt svæði norður af Boston er systursetur Innovation House. Leigjendum á frumkvöðlasetrinu á Eiðistorgi býðst að dvelja í Innovation House Magnolia í lengri eða skemmri tíma. Þetta getur komið sér vel ef fyrirtækin ætla að koma sér á framfæri á Bandaríkjamarkaði eða vilja hreinlega skipta um umhverfi um stund.  Enn fremur fer María með jöfnu millibili í skipulagðar námsferðir til Magnolia og Boston með sprotana í Innovation House.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn mars 20, 2018 11:22