Ljúf saga en rosaleg

Árni Þór Árnason

Árni Þór Árnason

Þegar við hittum Árna Þór Árnason kynningarstjóra Forlagsins á dögunum, var hann um það bil að fara að demba sér í lestur jólabókanna þetta árið. Hann reynir að lesa sem mest af þeim bókum sem Forlagið gefur út, en segist ekki komast yfir það allt. „En ég reyni alltaf að ná stíl þeirra bóka sem ég næ ekki að ljúka“, segir hann.

Vorbækurnar nær allar í kiljum

Það vekur athygli að bækurnar sem gefnar eru út um þessar mundir eru næstum allar í kiljum sem eru mun ódýrari en innbundnar bækur. Árni Þór segir að jólin séu tími innbundinna bóka. „Þá er stemming fyrir að gefa bækur og það er veglegra að gefa innbundna bók en kilju, hún er svona skör ofar“ segir hann. Vorbækurnar eru næstum allar í kilju, nema bók Héðins Unnsteinssonar Ég er úlfur, sem er innbundin.

Ljúf en einnig rosaleg

Bókin sem Árni Þór bendir okkur á að þessu sinni er einmitt í kilju. Hún heitir Ég á teppi í þúsund litum. Er eftir Anne B. Ragde, en í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. „Anne B. Ragde er mjög þekkt hér. Við höfum gefið út eftir hana nokkrar bækur, þar á meðal Berlínaraspirnar. En þetta er fyrsta „sjálfsævisögulega“ bókin sem hún gefur út. Hún segir sögu móður sinnar og hvernig það var að alast upp hjá henni“, segir hann. Hann segir bókina ljúfa og hjartnæma, en einnig rosalega. „Hún var áhugaverður karakter þessi móðir hennar“.

Ritstjórn júlí 3, 2015 10:38