Maggie Smith áttræð

Maggie Smith er heimilisvinur margra Sjónvarpsáhorfenda, ekki síst þeirra sem horfa að staðaldri á Downton Abbey. Þar leikur hún móður Lords Grantham og fylgist grannt með hverri hreyfingu, einkum dætra hans, til að ganga úr skugga um að þær hegði sér samkvæmt bókinni. Hún leikur auðvitað afburða vel, en kemst í bobba þegar gamall kærasti skýtur upp kollinum. Nú er þessi aldna kempa áttræð.

Ferillinn spannar rúm 60 ár

Leikferill hennar spannar rúmlega sextíu ár og á þeim tíma hefur hún leikið í yfir 60 kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hún hefur fengið öll þau verðlaun fyrir leik sinn, sem hægt er að fá á löngum ferli, fengið brjóstakrabbamein og náð sér af því, misst síðari eiginmann sinn, verið öðluð af Elísabetu Englandsdrottningu og þannig mætti lengi áfram telja.

Þurfti að breyta nafninu

Margareth Natalie Smith eins og hún hét fullu nafni, var fædd í Essex 28.desember árið 1934, en faðir hennar var háskólaprófessor í Oxford og móðir hennar starfaði sem ritari. Margareth átti eldri tvíburabræður sem báðir eru arkitektar. Þegar hún byrjaði að leika varð hún að breyta nafninu sínu í Maggie Smith, vegna þess að önnur leikona sem þegar var starfandi, bar sama nafn og hún, Margareth Smith.

Giftist tvisvar

Maggie var tvígift. Fyrri maðurinn hennar hét Robert Stephens og var leikari. Þau léku raunar saman í kvikmyndum og eignuðust tvo syni sem báðir eru leikarar. Þau skildu árið 1974. Síðari maður hennar var leikskáldið Beverly Cross, en þau voru gift þar til hann lést árið 1998. Meðal þekktustu kvikmynda Maggiear eru The Prime of Miss Jean Brodie, A Room with a View og Gosford Park.

Ekkert fararsnið á henni í Downton Abbey

Maggie Smith er enn að leika. Hún lék í Harry Potter og fyrir tveimur árum í myndinni The Best Exotic Marigold Hotel, sem vakti verðskuldaða athygli og fjallaði um aldursskeið sem okkur er hugleikið hér á síðunni Lifðu núna. Það er heldur ekkert fararsnið á henni í Downton Abbey þrátt fyrir sögusagnir um að það stæði til að skrifa hana út úr þáttunum. Í næstu þáttaröð mun því væntanlega koma í ljós hvernig henni reiðir af, þegar nýir tímar eru að renna upp í þáttunum og gömul gildi og hefðir eiga undir högg að sækja.

Ritstjórn desember 28, 2014 10:00