Margt eldra fólk á ekki fyrir jólagjöfum

Kjaramálanefnd Landssambands eldri borgara veltir fyrir sér hvort að ráðamenn þjóðarinnar viti ekki að nokkur þúsund eldri borgarar búi við fátækt. Að stór hópur sé á leigumarkaði og eigi ekki fyrir mat í lok mánaðar. Hvort að menn viti ekki   að lyf og læknishjálp hafi hækkað og  fólk eigi oft ekki fyrir lyfjum eða læknismeðferð. Nefndin lýsir undrun sinni á tillögum fjárlaganefndar Alþingis um að skerða væntanlega hækkun á bótum Almannatrygginga um tæpar 500 milljónir á næsta ári.

Laun hafa hækkað meira en bætur

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs var gert ráð fyrir 3,6 prósenta hækkun bóta sem nú stendur til að lækka niður í  þrjú prósent. Lækkunin er sögð tilkomin vegna væntanlegs góðæris á næsta ári. Kjaramálanefndin bendir á samið hafi verið um sjö prósenta launhækkanir að meðaltali á þessu ári.  Laun hafi því hækkað langt umfram bætur. Eldri borgar minna á að forsætis- og fjármálaráðherra hafi lofað eldri borgurum leiðréttingu vegna skerðinga frá árinu 2009.

Að velta hverri krónu fyrir sér

Vita menn ekki að þeim fjölgar sem leita til hjálparsamtaka? Vita menn að margt eldra fólk á ekki fyrir jólagjöfum til barnabarna? Vita menn hvað er að velta hverri krónu fyrir sér? Er ekki komið nóg af þessum vinnubrögðum, er spurt. Nefndin skorar á  Alþingi að huga að þessum hópi eldra fólks sem hefur lagt grunn að velferðarsamfélaginu  og menntun í landinu. „Ekki lítilsvirða fólk eftir langa starfsævi. Við fáum reynslusögurnar. Þær eru svo þungbærar að tekur engu tali. Nóg komið af slíku,“ segir í ályktun kjaramálanefndar eldri borgara.

 

Ritstjórn desember 5, 2014 14:26