Máttu svíkja hárgreiðslukonuna þína?

Er fólk að svíkja einhvern ef það hættir að skipta við sömu góðu gömlu hárgreiðslustofuna og það hefur skipt við í mörg ár? Raunar líður mörgum þannig. Ástæðan er sú að við deilum flest sögum úr hversdagslífi okkar, sigrum og sorgum með hárgreiðslumeistaranum okkar. Þeir þekkja okkur oft því býsna vel. Þetta er í fæstum tilvikum vinátta, en samt oft á tíðum mun persónulegra samband en við höfum við bifvélavirkjann sem gerir við bílinn okkar eða endurskoðandann sem fer yfir skattaskýrsluna. Á vef Huffington Post var nýlega rætt við nokkra hárgreiðslumeistara um hvernig þeir upplifðu það þegar fólk hætti viðskiptum við þá. „Þó tengslin séu oft á tíðum sérstök ætti fólki ekki að finnast það vera að upplifa svik þó það panti sér tíma á annarri hárgreiðslustofu. Í lok dags ertu að borga fyrir ákveðið verk en ekki vináttu,“ segir Megan Moore og bætir við að viðskiptavinirnir eigi rétt á því að leita annað ef þeir vilja. Hins vegar sé það tilfinningin um að þeir séu vinir hárgreiðslumeistarans sem geri þeim erfitt fyrir að leita annað. Það sé hins vegar oft á tíðum ágætt þegar einhver láti verða af því að skipta um stofu því þá komi nýir viðskiptavinir í staðinn og það auki fjölbreytnina og komi í veg fyrri stöðnun hárgreiðslumeistarans.

John Mosley segir að fólk eigi það til að læðast í burtu og stundum verði það vandræðalegt. Hann segir að karlmenn hafi meiri áhyggjur af því að skipta um stofu en konur. „Það er stundum fyndið þegar einhver hefur ekki komið lengi og þegar maður rekst á viðkomandi og heilsar honum segist hann hafa týnt símanúmerinu eða haldið að stofan hafi flutt sig um set. Það særir ekki tilfinningar mínar þó einhver  kjósi að leita annað. Lífið er breytingum háð og stundum hefur fólk ekki efni á að koma til mín eða bara langar að prófa aðra stofu, segir John og bætir við sumir  afsaki sig  með því að það sé erfitt að komast á staðinn og það séu engin bílastæði í grennd. Hárgreiðslumeistararnir eru þó sammála um að fólk sem ætlar ekki að mæta í boðaðan tíma ætti að láta vita með góðum fyrirvara, 24 tímar séu algert lágmark. Það gefi þeim tækifæri á að ná sér í aðra viðskiptavini.

Colleen Duffy segir að vinnan sé mjög persónuleg. „Það getur sært smá þegar tryggur viðskiptavinur ákveður að leita annað en það gerist. Ég hef tapað viðskiptavinum til vina minna í bransanum og þeir hafa sömuleiðis tapað viðskiptavinum til mín. Það á ekki að taka slíkt inn á sig . Maður getur víst ekki gert öllum til hæfis. Ef að fólk ákveður að snúa til baka veit maður að það hefur látið klippa sig og greiða annars staðar. En fólk er alltaf að reyna að láta líta út eins og það hafi ekki farið annað þrátt fyrir að klippingin sé hörmung og liturinn út í hött. Í svipaðan streng tekur Sal Sacdeo „Þegar gömlu viðskiptavinirnir koma til baka greinir maður oft sorg í  andlitum þeirra,“ segir hann  hlæjandi og bætir við að fólk segi gjarnan að það hafi lært sína lexíu. Það hafi haldið að það væri betra að finna einhvern ódýrari og nær heimili þeirra. En svo hafi klippingin og litunin verð ömurleg.

Ritstjórn febrúar 23, 2018 09:39