Merkingarlaust gjálfur

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:

Sýningum er lokið á Óvini fólksins í Þjóðleikhúsinu, nýrri leikgerð hins rúmlega hundrað ára gamla verks norska leikskáldsins Henriks Ibsens. Þetta er magnað leikverk og það er án efa rétt sem leiklistargagnrýnandi RÚV segir, að það kljúfi áhorfendur í fylkingar. Slíkt gerist þegar hagsmunir og sannleikur rekast á. Eitt atriði í verkinu stendur sérstaklega upp úr í mínum huga. Það er ákall stjórnmálamannsins um stöðugleika. Sólveig Arnarsdóttir túlkaði stjórnmálamanninn og var töluvert skýrari í framburði og glæsilegri en allir hinir hefðbundnu stjórnmálamenn sem tala svo óskaplega mikið um stöðugleika. Þetta þreytta orðskrípi er nánst orðið merkingarlaust vegna ofnotkunar, sem gerir það hins vegar enn áhrifaríkara í verki Ibsens. Þeir sem hafa sig mest í frammi í þessum efnum virðast ekki hafa nokkurn skapaðan hlut fram að færa í raun. Orðið hljómar því allt of oft eins og merkingarlaust gjálfur.

Í aðdraganda nýafstaðinna alþingiskosninga vísuðu sumir frambjóðendur til þess, eins og þeir höfðu svo oft gert áður, hve mikilvægt það sé að tryggja stöðugleika áfram. Þeir virðast telja að það hafi verið stöðugleiki hér á landi hin síðari ár. Það eru oftast sömu frambjóðendurnir sem tala svona.

Hvaða stöðugleika er verið að tala um? Jú, fyrir atvinnulífið og fjárfestana auðvitað, en viðkvæðið er alltaf að stöðugleikinn sé fyrst og fremst fyrir hinn almenna borgara, og að almenningur tapi mestu á óstöðugleikanum, sem þá væntanlega er andstaða stöðugleikans af eðlilegum ástæðum. Stöðugleikinn á þannig að vera öllum fyrir bestu, og ætti að vera það, en svo er bara því miður ekki. Það er langur vegur þar frá.

Húsnæðisstuðningur hins opinbera í gegnum vaxtabótakerfið er dæmi um það hvernig stöðugleiki getur snúist upp í andhverfu sína. Það tókst að rústa þessu kerfi á fáum árum. Nú eru það þeir efnameiri sem fá húsnæðisstuðninginn frá hinu opinbera á meðan hinir efnaminni, sem kerfið var hugsað fyrir, sitja eftir og fá nánast ekkert. Þetta kalla þeir samt stöðugleika. Reyndar er húsnæðiskerfið í heild sinni ekki beint vitnisburður um stöðugleika, nema að því leyti að fyrir þá sem lítið eiga verður stöðugt erfiðara að komast inn á þennan markað. Að það sé stöðugleiki er auðvitað öfugmæli. Kannski man einhver eftir því þegar kjararáð hækkaði laun toppanna í þjóðfélaginu, sjálfan kosningadaginn 2016, langt umfram það sem aðrir fengu, og leyndi ákvörðuninni fram yfir kjördag, væntanlega til að stuðla að stöðugleika. Og hvaða stöðugleiki ætli hafi átt að ráða för þegar stjórnvöld lækkuðu frítekjumark ellilífeyrisþega á vinnumarkaði úr 109 þúsund krónum á mánuði í 25 þúsund um síðustu áramót? Sama fólk komu svo síðar og lofaði að hækka allt aftur. Þetta er frábær tækni, sem platar kannski eihverja, en getur varla kallast stöðugleiki. Svona væri hægt að halda áfram, dæmin eru mýmörg; heilbrigðiskerfið og launaþróunin þar, menntakerfið og laun kennara, kjör öryrkja og aldraðra, og fleira og fleira. Stöðugleikanum er ekki fyrir að fara.

Getur kannski verið að stöðugleiki sé teygjanlegt hugtak, eins og sagt var um árið af öðru tilefni? Svokallaður stöðugleikinn hefur ekki verið öllum til hagsbóta. Hann hefur svo sannarlega verið hagstæður ákveðnum útvöldum, en ekki heildinni. Hvers virði er slíkur stöðugleiki í raun, þegar svo greinilega er vitlaust gefið?

Sumir hefðu haft gott af því að sjá Ibsen í Þjóðleikhúsinu áður en þeir hinir sömu héldu áfram sama söngnum um það hve stöðugleikinn væri mikilvægur fyrir alþingiskosningarnar um daginn, aðallega af gömlum vana. En svona er þetta þegar fólk skiptist í fylkingar.

 

Grétar Júníus Guðmundsson nóvember 20, 2017 09:16