Mikilvægt að gera eitthvað annars staðar en heima hjá sér

Yfir 30% fólks á aldrinum 71-78 ára tekur þátt í sjálfboðaliðastarfi hér á landi.  Þeir sem gera það eru hlutfallslega flestir á aldrinum 75-78 ára. Eftir það dregur úr sjálfboðaliðastörfum manna en samt taka 18%  þeirra sem eru á aldrinum 83ja ára og eldri, þátt í sjálfboðaliðastarfi af einhverju tagi. Þetta kemur fram í nýrri könnun þeirra Ingibjargar H. Harðardóttur og Amalíu Björnsdóttur sem heitir Eldri borgarar: Hjálparþurfi eða bjargvættir.

Harðsnúið lið pökkunarmeistara

Hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er dágóður hópur fólks sem tekur þátt í sjálfboðaliðastarfi. Þeim var nýlega haldið samsæti og Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður félagsins sagði útilokað fyrir félagið að halda uppi starfi í núverandi mynd, ef krafta sjálfboðaliða nyti ekki við.  Hún nefndi sem dæmi harðsnúið lið pökkunarmeistara sem pakkar inn jólakortum fyrir félagið, auk margra annarra, svo sem þeirra sem sjá um skákina hjá félaginu, dansinn og ýmislegt fleira.

Langfjölmennastir og best sóttir

Garðar Guðmundsson segir að skákklúbbur Félags eldri borgara í Reykjavík sé búinn að vera starfandi í tæp 20 ár, en hann hafi starfað með honum í þrjú ár. „Það eru nokkrir skákklúbbar eldri borgara í Reykjavík en við erum langfjölmennastir og best sóttir, enda er aðstaðan hér til fyrirmyndar“, segir hann. Það eru eingöngu karlar í klúbbnum þó einstaka kona hafi slæðst þar inn. Garðar segir að skákin gefi sér mikið. „Þetta er alveg rosalega gaman, ég er búin að tefla síðan ég var stráklingur“, segir hann.

Anna Kristín Þórarinsdóttir

Matur fyrir okkur kortakerlingarnar

Anna Stína Þórarinsdóttir er ein þeirra sem tekur þátt í að pakka jólakortunum fyrir Félag eldri borgara. Hún segir að það sé bara svo gaman. „Konurnar eru svo skemmtilegar og svo er alltaf matur fyrir okkur kortakerlingarnar í hádeginu og kaffi“, segir hún. Anna Stína hefur líka verið í sjálfboðaliðastarfi fyrir Rauða krossinn. Þar hefur hún verið heimsóknarvinur, en hún á tvo hunda sem hún tekur með sér í heimsóknir til dæmis á Elliheimilið Grund. Hún hefur líka hitt nýbúa, einkum börn, sem hafa gaman af hundunum. Hún fór í heimsóknir á Grund í þrjú eða fjögur ár. „Ég fór hálfsmánaðarlega og það var alltaf tekið vel á móti mér þar“, segir hún.

Dansinn veitir gleði

Jón Freyr og Matthildur er búin að dansa saman í rúma hálfa öld

Jón Freyr Þórarinsson og Matthildur Guðmundsdóttir hafa alltaf dansað og hafa í mörg undanfarin ár séð um dansinn hjá Félagi eldri borgara og verið með danskennslu. „Mér finnst mikilvægt fyrir fólk sem hættir störfum að gera eitthvað annars staðar en heima hjá sér og við höfum alltaf haft svo mikinn áhuga á dansinum og finnst allt sjálfsagt sem að honum snýr“, segir Jón Freyr. Matthildur segir að dansinn veiti svo mikla gleði „Stundum hafa 60 manns komið hingað í danskennslu og allir eru svo glaðir þegar þeir fara, það er ekki nöldrið eða neikvæðnin“, segir hún og bætir við að það sé gjöfult að vera með fólki sem sé svona þakklátt og  dýrmætara en að fá peninga fyrir kennsluna.

Ritstjórn febrúar 15, 2017 12:00