Minnstu eldri borgara íbúðirnar á 36,5 milljónir

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Samtök aldraðra eiga fjölda íbúða í borginni sem eru sérstaklega ætlaðar eldra fólki.  Báðir þessir aðilar eru að byggja nýjar íbúðir þessa dagana. Félag eldri borgara er komið lengra á veg með sínar 68 íbúðir sem eru í Árskógum í Mjódd, en Samtök aldraðra eru að hefja byggingu 60 íbúðir á lóð Kennaraháskólans.

Það er byrjað að selja íbúðir í þessum glæsilegu húsum

Frá 36,5 milljónum og upp í tæpar 70 milljónir

Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík, segir félagið byrjað að selja íbúðirnar í Árskógum, sem verða afhentar á næsta ári.  460 manns skráðu sig á lista til að fá að kaupa íbúðir í húsunum. 80 manns af listanum sem stóðust úthlutunarreglur félagsins, fengu í vor boð um að koma til viðtals um hugsanleg kaup og að sögn Gísla eru allar íbúðirnar að ganga út. Stærð íbúðanna í Árskógum eru á frá 80 fermetrum og upp í 148 fermetra. Minnstu íbúðirnar kosta 36,5 milljónir króna, en þær dýrustu um 70 milljónir króna, þeim fylgir stæði í bílageymslu. Gísli segir að þessar íbúðir félagsins séu á, að minnsta kosti 10% lægra verði en sambærilegar íbúðir á markaðinum.

Byggingaverktakarnir taka of mikinn arð út úr þessu

Gísli Bogason hjá Samtökum aldraðra segir að samtökin hafi veri að taka við lóðinni við Kennaraháskólann og það liggi ekki fyrir hvert verð íbúðanna þar verði. „En við reynum að halda verðum á okkar íbúðum óbreyttum og  fermetraverð á tveimur síðustu húsum, var annars vegar 420.000 krónur en hins vegar um 450.000 krónur.  Það er ákveðið vandamál í dag hvað þetta er orðið dýrt, byggingaverktakarnir eru að taka alltof mikinn arð út úr þessu“, segir hann, en samtökin hafa mikinn áhuga á að byggja meira. „ Við viljum semja við borgina um fleiri lóðir, ekki veitir af þegar eldri borgurum er alltaf að fjölga, það þarf að byggja miklu meira“, segir hann, en bætir við að Samtök aldraðra hafi ekki getað fengið lóðir hjá borginni í átta ár.

Það er rétt að taka fram að ákveðnar kvaðir fylgja íbúðunum sem þessi félagasamtök selja sínu fólki. Ef menn vilja selja íbúðirnar sínar, gildir til dæmis ekki markaðsverð, heldur viðmið sem félögin hafa sett um verðið.

Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands fjölgar 67 ára og eldri hér á landi um 48% fram til ársins 2030. Þessi aldurshópur telur rúmlega 42 þúsund manns, en verður tæplega 63 þúsund eftir 12 ár. Smelltu hér til að skoða búsetumál eldra fólks í Upplýsingabanka Lifðu núna.

Ritstjórn september 30, 2018 17:08