Munaði mjóu að nær öll guðfræðideildin færist í flugslysi

Séra Vigfús Þór Árnason sóknarprestur hefur látið af starfi í Grafarvogskirkju fyrir aldurs sakir og nýlega kom út endurminningabókin Vilji er allt sem þarf, þar sem ferill hans er rakinn.  Það er Ragnar Ingi Aðalsteinsson sem skráir.  Vigfús stundaði nám við guðfræðideild Háskóla Íslands en sótti sér viðbótarmenntun til Þýskalands og Bandaríkjanna.  Að námi loknu gerðist hann sóknarprestur á Siglufirði, en varð síðar sóknarprestur í fjölmennustu kirkjusókn landsins, Grafarvogi í Reykjavík.  Það má segja að það hafi verið rauður þráður í starfi Vigfúsar alla tíð að opna kirkjuna og virkja menn til þáttöku í safnaðarstarfinu.  Hann var einn þeirra sem stóð að umdeildri poppmessu í Langholtskirkju árið 1969. Um hana segir í bókinni.

Umræðan um poppmessu byrjaði í Langholtskirkju. Þar var opið fyrir ýmsum nýjungum frekar en í öðrum kirkjum á þessum tíma. Þar starfaði til dæmis ein fyrsta og virkasta AA-deildin. Þá voru ekki margar kirkjur búnar að stíga það skref að bjóða þeim hópi inn. Ég var, eins og fram kemur annars staðar, mjög tengdur þessari kirkju og var á fullu í æskulýðsstarfinu ásamt því að vera í námi.  Hugmyndin kviknaði ekki hvað síst eftir umræður meðal skiptinemanna. Það er erfitt að ræða um svona hluti nema hafa kynnst þeim. Ég var auðvitað mjög upptekinn af því að hafa upplifað ýmiss konar messuform úti í Bandaríkjunum og sama gilti um ýmsa aðra sem ég var í félagsskap við á þessum tíma. Það kom sem sagt upp umræða um að gera messuformið aðgengilegra fyrir unga fólkið, að halda poppmessu.

Poppmessan var svo í Langholtskirkju sunnudaginn 23.febrúar 1969. Að henni stóð skiptinemasamband Þjóðkirkjunnar en séra Sigurður Haukur Guðjónsson var presturinn sem stóð á bak við þetta. Hann var mjög opinn fyrir því að brjóta formið upp og tilbúinn fyrir nýjungar og steig sjálfur mörg skref sem stungu fullkomlega í stúf við hefðir kirkjunnar. Hann var alveg á kafi í þessu með okkur og fól okkur að byggja þetta upp.

Jón Stefánsson organisti var opinn fyrir því sem við vorum að gera og hann kom að tónlistarflutningnum en annars var tónlistin að hluta leikin af hljómplötum. Þar bar hæst ýmis lög sem á þeim tíma voru vinsæl. Ég man ekki hvað lögin voru mörg, en eitt af þeim var „Slappaðu af“, sem var eitt visælasta lagið þá í „Lögum unga fólksins“. Í þeim texta er viðmælanda flytjandans sagt að halda kjafti!

Það fór allt á hvolf og áhorfendur voru ekki hrifnir. Það var kallað til fundar í húsinu sem þá hét Lídó, síðar Tónabær, þar var troðfullt. Umræðan snerist um það hvort þetta ætti nú að koma í staðinn fyrir messurnar almennt, en það var auðvitað alls ekki meiningin. Poppmessan átti að þróast við hliðina á hinni hefðbundnu messu, sem varð líka, hægt og rólega, og núna tekur enginn eftir þessu. Þær eru kallaðar æskulýðsmessur, stundum líka gospelmessur, léttar messur eða þjóðlagamessur. Og öllum finnst það við hæfi.

Það eru margar góðar lýsingar í bókinni, þar á meðal frá för guðfræðinema til Færeyja með Fokker frá Flugfélagi Íslands. Með í för voru dr. Björn Björnsson og fleiri prófessorar úr guðfræðideildinni.

Við lentum í Vogum en áður en þangað var komið lenti vélin í lofttómi og féll einhver hundruð metra. Flugstjórinn hafði þá verið ein 27 ár hjá félaginu og hann sagði eftir á að þetta væri mesta fall sem hann vissi til að vél hjá þeim hefði lent í. Ég var með veski í rassvasanum, það hoppaði upp úr vasanum og fannst svo aftast í vélinni þrátt fyrir að ég sæti framarlega. Það fór allt á annan endann þarna í þyngdarleysinu.

Ég sat við hliðina á Gunnari Björnssyni sem var með hópnum. Hann sagði við mig:“Ættum við, þú eða ég, Vigfús minn, að flytja lokabæn?“ „Nei“, svaraði ég, „þetta er nú ekki alveg búið, ég sé að minnsta kosti sjóinn“.

Einhverjir höfðu notað tækifærið og keypt sér áfengi í fríhöfninni og margar flöskur brotnuðu þegar vélin dók dýfuna. Eitthvað af víninu helltist yfir mig og fleiri. Ég angaði eins og spritttunna þegar ég kom út úr vélinni. Biskupinn í Færeyjum tók á móti okkur, guðfræðideildinni, sem þarna var í sinni fyrstu heimsókn til Færeyja, og ég sem formaður Félags guðfræðinema heilsaði honum fyrstur. Þá segir hann:“Þið hafið verið að skemmta ykkur“. Ég svaraði samkvæmt bestu vitund og sagði:“Ef þú ert að tala um vínlyktina þá stafar hún af því að það brotnuðu vínflöskur í vélinni og sumt af því helltist yfir okkur farþegana.“ Hann klappaði mér á öxlina og sagði í umburðarlyndistón: „Allt í lagi, góði minn“. Svo var það ekki rætt meira.

Kirkjustarf séra Vigfúsar Þórs er fyrirferðarmes í bókinni, en þar segir frá starfinu innan þjóðkirkjunnar sem almennir lesendur þekkja hugsanlega ekki af eigin raun.  Frásögnin af því hvernig Vigfús Þór byggði upp nýja sókn frá grunni í Grafarvogi er afar áhugaverð. Bókin er létt og krydduð með umsögnum samferðarmanna Vigfúsar, um hann. Grípum niður í eina þeirra. Það er Róbert Guðfinnsson athafnamaður sem á orðið:

Þegar Vigfús kom norður var Siglufjörður enn að jafna sig eftir að síldin hvarf. Hús voru að grotna niður og mannlífið oft heldur dapurt. Vigfús koma með ljóma í augum, bjartsýnn og atorkusamur, og benti á hvað hér væri fallegt, hvað bærinn ætti merka sögu og hversu miklir möguleikar fælust í mannauðnum og fornri frægð staðarins. Hann lyfti sjálfsmynd staðarins og fólksins sem þar bjó. Fyrir það þykir Siglfirðingum vænt um hann.

 

 

Ritstjórn desember 9, 2016 12:05