Nóg að hreyfa sig í 30 mínútur á dag

Erlingur Jóhannsson

Erlingur Jóhannsson

„Það er nóg fyrir fólk að hreyfa sig í þrjátíu mínútur á dag. Þessum tíma má skipta upp í tvennt og hreyfa sig í tvisvar sinnum 15 mínútur. Vísindin hafa ekki getað sannað að það sé munur á því að hreyfa sig samfellt í hálftíma eða skipta þeim tíma í tvennt sem notaður er í hreyfingu. Hvoru tveggja gengur,“ segir Erlingur Jóhannsson prófessor í íþróttafræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hann segir að vöðvarýrnun hefjist eftir að þrítugsaldri sé náð. Rýrnunin verður þess meiri sem fólk hreyfir sig minna. Til að koma í veg fyrir vöðvarýrnun þarf fólk að leggja stund á einhverskonar hreyfingu. Regluleg hreyfing hægir á áhrifum öldrunar og fólk verður lengur sjálfbjarga.

Styrktarþjálfun af hinu góða

Í leiðbeiningum Lýðheilsustofnunar segir að roskið fólk ætti að stunda miðlunsgerfiða hreyfingu í að minnsta kosti 30 mínútur daglega til að halda heilsunni í lagi. Með því að hreyfa sig lengur og af meiri ákefð sé mögulegt að bæta heilsuna enn frekar. Æskilegt sé að fullorðið fólk stundi erfiða hreyfingu að minnsta kosti tvisvar í viku í tuttugu til þrjátíu mínútur í senn því það viðhaldi og bæti enn frekar þol, vöðvastyrk, liðleika, jafnvægi og beinheilsu. Styrktarþjálfun er sérstaklega gagnleg rosknu fólki, meðal annars til að viðhalda hreyfifærni og stuðla að auknu gönguöryggi.

Gott að ganga rösklega

Hreyfing er af margvíslegu tagi. Það er hægt að  fara milli staða gangandi eða á hjóli eins oft og mögulegt er, þrífa heimilið, velja stigann í stað lyftunnar, ganga rösklega, synda eða skokka rólega og sinna garðvinnu. Þeir sem hafa lengi lifað kyrrsetulífi geta byrjað á því að fara daglega í göngu og aukið síðan álagið smám saman. Það er til dæmis hægt að gera með því að lengja göngutímann, ganga hraðar eða í meiri halla.

Aldrei of seint að byrja

„Það er aldrei of seint fyrir fólk að fara að hreyfa sig. Fólk, sama á hvað aldri það er bætir heislu sína mjög mikið ef það fer að hreyfa sig reglulega. Það sem þarf að hafa í huga er að byrja rólega og ætla sér ekki um of. Þegar fólk er orðið vant því að hreyfa sig getur það aukið ákefðina,“ segir Erlingur. Hann segir að ganga sé til að mynda mjög góð hreyfing fyrir flesta. „Fólk á ekki að ganga of hratt ef það ætlar að grennast, það er rétt að miða við að fara ekki yfir 60 prósenta hámarkspúls,“ segir hann.

Erlingur segir að ávinningurinn af því að hreyfa sig sé margvíslegur. Svefninn batnar, liðleikinn eykst, lundinn léttist og hreyfing minnki hættuna á hjarta og æðasjúkdómum.

Ritstjórn ágúst 27, 2015 12:29