Nokkur góð ráð til að standa upp úr stólnum

 

Hreyfing er öllum holl, það vita allir. Þrátt fyrir það er oft mjög erfitt að standa upp úr stólnum og byrja. Á vefnum Hjartalíf.is er að finna 20 ráð til að koma sér af stað og gera líkamsrækt að sjálfsögðum hluta daglegs lífs. Lifðu núna fékk leyfi til að birta hluta greinarinnar.

Veldu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Það er ýmislegt sem flokkast sem góð hreyfing: dans, ganga, jóga, garðyrkja, hjóla, spila körfubolta og svo framvegis. Til að auðvelda þér það að byrja að hreyfa þig, skaltu velja eitthvað sem þér finnst  skemmtilegt til að koma þér af stað.

Hreyfðu þig oftar. Þú þarft ekki endilega að eyða mjög löngum tíma í einu í hreyfingu. Tíu mínútur á morgnanna, í hádeginu og á kvöldin getur skilað sama ávinningi og 30 mínútna samfelld hreyfing.

 Æfðu með vini/vinkonu. Það getur verið hvetjandi að hafa æfingafélaga.

Hreyfðu þig rösklega. Gakktu rösklega í stað þess að ganga hægt. Gaktu eins og þú sért á leið í hádegismat með vini og ert orðinn frekar seinn. Þú getur talið hversu mörg skref þú tekur á mínútu: 120-135 skref á mínútu samsvarar því að ganga á 4.8 til 6.4 km á klukkustund. Ef þú ert ekki alveg svona hraðskreiður þá er sniðugt að auka hraðann í smá stund og hægja gönguna svo aftur. Smátt og smátt nærðu að vinna þig upp í meiri gönguhraða.

Taktu smá hreyfingu í hádegishléinu. Ekki eyða öllu hádegishléinu sitjandi. Farðu í líkamsrækt eða í 20 mínútna göngutúr. Þú getur svo fengið þér í gogginn þegar þessu er lokið.

Prófaðu að nota skrefamæli. Skrefamælar eru ódýrir og einfaldir í notkun, þeir hjálpa til við að halda utan um hversu virkur þú ert. Einnig eru til ýmis konar „öpp“/forrit fyrir síma sem telja skref. Reyndu að vinna þig upp í um 7000 skref á dag, eða meira.

Taktu stigann. Notaðu stigann í stað lyftunnar þegar færi gefst.

Slökktu á sjónvarpinu, tölvunni og snjallsímanum.  Þetta er góð leið til að minnka þann tíma sem þú eyðir „sitjandi“. Skiptu þessum tíma út fyrir hreyfingu, farðu í ræktina, þrífðu heima hjá þér eða farðu í göngutúr.

Farðu út einni stoppistöð fyrr. Ef þú tekur strætó, er hægt að fara út einni stoppistöð áður en komið er á áfangastað. Það eykur þann tíma sem þú ert á hreyfingu.

Leggðu bílnum eins langt í burtu og þú getur. Ef þú keyrir í vinnuna eða ert að snúast, leggðu þá viljandi aðeins lengra í burtu frá vinnustaðnum eða búðinni en þú ert vanur. Þetta virðist kannski ekki vera mikið, en á nokkrum vikum og mánuðum  safnast þessar mínútur saman.

Gerðu þína eigin „rækt“. Veltu því fyrir þér hvort þú getir keypt einhvers konar líkamsræktartæki til að eiga heima, eins og spinning hjól, lóð, jógadýnu eða annað. Þetta getur verið ansi hentugt ef maður á erfitt með að koma sér af stað í ræktina.

Hafðu gaman. Prófaðu nýja íþrótt, til dæmis badminton eða að fara á línuskauta. Því skemmtilegri sem þér finnst hreyfingin, því líklegra er að þú haldir þig við hana.

Finndu þér félagsskap. Farðu í göngutúr með vini, maka eða einhverjum úr fjölskyldunni, annað hvort á morgnana eða á kvöldin.

Skráðu þig í tíma. Athugaðu hvort líkamsræktarstöðin þín, eða aðrir staðir, eru með tíma sem hægt er að skrá sig í. Það hentar mörgum að eiga að mæta á ákveðnum tímum og vera að læra eitthvað nýtt, það getur haldið fólki við efnið.

Breyttu „sitjandi-tíma“ í „hreyfi-tíma“. Þegar þú ert upptekinn og lítill tími finnst til að hreyfa sig er sniðugt að reyna að hreyfa sig þegar maður er annars vanur að sitja. Gera nokkrar æfingar fyrir framan sjónvarpið, til dæmis magaæfingar eða skokkaðu á staðnum.

Skrifaðu niður hvað þú hreyfir þig mikið. Það er gott að fylgjast með því hversu mikið maður hreyfir sig og því gott að skrifa það niður daglega. Það virkar hvetjandi.

Gaktu eða hjólaðu þegar þú ert að snúast um bæinn. Skildu bílinn eftir heima þegar þú ert að fara að snúast í næsta nágrenni við heimilið.

Ráðfærðu þig við þá sem þekkja til. Fáðu þér einkaþjálfara í einn til tvo tíma til þess að læra nýjar æfingar eða fá prógramm og ráðleggingar sem henta þér. Það auðveldar fólki oft að koma sér af stað og til að halda svo áfram sjálfur.

Skipulegðu hvenær yfir daginn þú ætlar að hreyfa þig. Taktu frá ákveðinn tíma yfir daginn sem hentar þér til þess að hreyfa þig og settu hann inn í dagbókina.

Verðlaunaðu sjálfan þig. Settu þér skammtíma markmið – og verðlaunaðu þig þegar þú nærð þeim. Veldu þér verðlaun sem tengjast hreyfingu, til dæmis ný æfingaföt eða púlsmæli svo dæmi séu tekin. Settu þér jafnvel ákveðinn atburð sem tímamarkmið, til dæmis kvennahlaupið, 5 km í Reykjavíkurmaraþoninu, eða einhverjar skemmtilegar göngur í náttúrunni sem þú vilt taka þátt í. Þetta getur hvatt þig áfram og haldið þér við efnið.

Ritstjórn apríl 13, 2016 10:46