Nýársböll 68 kynslóðarinnar slógu í gegn

Margrét S. Björnsdóttir

Það var snemma á níunda áratug síðustu aldar, að hópur fólks af 68-kynslóðinni svokölluðu kom saman og ákvað að halda nýársball í Þjóðleikhúskjallaranum.  Nýársböllin urðu feikivinsæl og voru haldin árlega í rúm 20 ár. Margrét S. Björnsdóttir (MSB) aðjúnkt við Háskóla Íslands og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (ÁRJ), fyrrverandi forseti Alþingis, voru báðar í hópnum sem stóð að þessu dansleikjahaldi 68 kynslóðarinnar en hvers vegan var ákveðið að ráðast í þetta?

MSB: Á þessum árum var byrjað að halda nýjársdansleiki sem okkur fundust uppskrúfaðir og tilgerðarlegir og aðgangseyrir var firnahár. Við vorum því nokkur, vina- og kunningjahópur, sem tókum okkur til og ákváðum að skipuleggja okkar eigin áramótadansleiki. Við gætum gert þetta miklu betur með tónlist, veislustjóra og ræðumenn okkar kynslóðar og skemmtiatriði sem féllu að okkar smekk. Ákváðum að aðgöngumiðaverð væri hóflegt þó mikið væri borið í dagskrána. Þetta sló í gegn og við troðfylltum Leikhúskjallarann ár eftir ár, en færðum okkur seinna uppí Súlnasal Hótel Sögu. Þar var líka alltaf uppselt og þurfti í nokkur skipti að opna inn í hliðarsali til að koma öllum fyrir.

Ásta R. Jóhannesdóttir

ÁRJ: Þetta voru menningarsamkomur og mikið lagt í dagskrána hverju sinni.  Veislustjórarnir voru sérvaldir og komu úr okkar röðum. Við fengum flotta listamenn til að koma fram eins og td. Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Þarna spilaði td. Víkingur Heiðar Ólafsson þá ungt undrabarn í tónlist, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir óperusöngkona, Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari spilaði eftirminnilega, allt ungt fólk sum afkomendur ´68 kynslóðarinnar. Jóhannes Kristjánsson eftirherma kom fram nokkrum sinnum og var óborganlega fyndinn. Svo má nefna okkar ástsæla söngvara Hauk Mortens sem þessi kynslóð dáði mjög, Ragnar Bjarnason sló í gegn með klassískum dægurlögum og Lúdó og Stefán sem höfðu engu gleymt, og við sungum með þeim af hjartans list Nú set ég tvistinn út og ég breyti í spaða!! Valgeir Guðjónsson Stuðmaður tróð upp, Karl Sighvatsson á Hammond orgeli, Þokkabót kom líka sérstaklega saman í tilefni áramóta til að vera með. Svona mætti lengi telja.

Af hverju voru böllin kennd sérstaklega við 68 kynslóðina?

MSB: Við sem skipulögðum þetta vorum af þeirri kynslóð og þetta var hugsað sem vörumerki þannig að fólk vissi hvaða andi og aldurshópur væri þarna á ferðinni.

ÁRJ: Þetta voru líka skilaboð um að þetta væru böll fyrir þessa kynslóð, enda var eftirspurnin svo mikil að fljótt varð uppselt og slegist um miðana á hverju ári. Margir sem voru etv. ekki af þessari kynslóð fréttu af fjörinu og vildu líka vera með. Fjöldi fólks varð áskrifendur að miðum og ef ekki var mætt fengu aðrir miðana og á næsta balli var ekki á vísann að róa með miða. Við í nefndinni fengum engan frið yfir jólin fyrir hringingum frá fólki sem vildi komast á ballið.

68 kynslóðin var þekkt fyrir að mótmæla ýmsum hefðum og kerfum. Þessi mynd í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur, var tekin árið 1970 þegar námsmenn mótmæltu í Menntamálaráðuneytinu.

Er 68 kynslóðin eitthvað öðruvísi, skemmtir hún sér öðruvísi?

MSB: Ekkert endilega en við vildum hlusta á tónlist okkar tíma, fá ræðumenn úr okkar röðum og skemmta okkur saman. Og þetta var skemmtilegt.

ÁRJ: Jú, 68 kynslóðin er sérstök og böllin þar með. Þarna var bítlamenningin og poppið fólki í blóð borið og dansinn með fjöldasöng magnaður þar sem allir tóku þátt. Það má líka segja að 68 kynslóðin sé öðruvísi en aðrar kynslóðir, hún er kynslóð hippatímans og mikilla samfélagsbreytinga sem hafði mikil áhrif á lífsmáta þessa fólks.

Hvað er eftirminnilegast við þessi böll?

MSB: Stemmingin, stuðið, sumum fannst þetta eins og skólaball eða jafnvel minnti á Glaumbæ sem var aðalskemmtistaður okkar kynslóðar áður en hann brann. Allir þekktust meira og minna og höfðu ánægju hver af öðrum.

ÁRJ: Gleymum ekki fjöldasöngnum sem þeir Gylfi Gunnars og Halldór Gunnarsson úr Þokkabót stjórnuðu við undirleik Sigurðar Rúnars Jónssonar, Didda fiðlu. Þar söng hver sem betur gat, bítlalögin, Rolling stones og alla “standardana” sem voru hvað vinsælastir á okkar blómatíma, – okkar blómabarnanna!  Í fjöldasöngnum byrjaði samkenndin sem ríkti á hverju áramótaballi og var engri lík. Við lögðum líka mikið upp úr góðum matseðli og var alltaf glæsilegur og mjög góður matur, nema í eitt skiptið, en ekki orð um það.

MSB: Hljómsveitirnar voru margar og allar af okkar kynslóð og spiluðu lög okkar tíma. Sú sem spilaði oftast við frábærar undirtektir var hljómsveitin Pops.

ÁRJ: Pétur Kristjánsson var primus motor í Pops og æfði hljómsveitin sérstaklega fyrir þessi böll. Byrjuðu með 40 lög á lagalistanum á fyrsta ballinu en undir lokin man ég að Pétur hringdi í mig hróðugur, – þá voru þeir komnir með yfir eitthundrað lög! Það var ekki komið að tómum kofanum hjá Pops, Óttar Felix stjórnað eins og herforingi og Óli trommari kom um hver áramót sérstaklega til að spila og salurinn söng með og dansaði í einni kös alveg eins og í gamla daga,- og það var engin leið að hætta.

MSB: Hljómar spiluðu með Rúnari Júl og Shady Ovens  sérstaka dagskrá á aldamótadansleiknum og voru þeir ógleymanlegir. Gestir á ballinu stóðu upp á stólum, sveifluðu kveikjurum eins og á tónleikum forðum daga. Hljómsveitin Mannakorn með Magnús Eiriksson í farabroddi var líka eftirminnileg. Ræðumenn voru undantekningalaust frábærir, sérvaldir og spönnuðu allt pólitíska litrófið. Skáld, lögfræðingar, læknar, stjórnmálamenn, hagfræðingar, félagsráðgjafi, líffræðingar, læknir, stærðfræðingur, stjórnmálafræðingar- öll miklir lífskúnstnerar- fyndin og vitur.

ÁRJ: Sem dæmi má nefna nokkur nöfn ræðumanna sem koma upp í hugann í fljótu bragði, að öðrum ólöstuðum; Magdalena Scram, Ólafur H. Torfason, Steinunn Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún, Kári Stefánsson, Pétur Gunnarsson, Þórarinn Eldjárn, Tryggvi Pálsson, Birna Þórðardóttir, Guðmundur Ólafsson (Lobbi) og Svanur Kristjánsson. Svo vorum við í skemmtinefndinni líka liðtækir ræðumenn, en í nefndinni voru öll árin auk okkar Margrétar þau Kristín Ástgeirsdóttir, Halldór Gunnarsson, Sigríður Jónsdóttir, Ævar Kjartansson, auk maka sem öll tóku virkan þátt í hugmyndasmíð og framkvæmd.

Hvers vegna leið þessi skemmtun undir lok?

MSB: Allt hefur sinn tíma. Okkur fannst þetta orðið gott eftir á þriðja áratug, það fækkaði í fasta kjarnanum sem hafði mætt öll árin nýtt fólk bættist við sem við þekktum ekki. Þannig að við sem höfðum gert þetta allt í sjálfboðavinnu fannst þetta orðið gott.

Er ekki ástæða til að taka upp sérstakar skemmtanir aftur fyrir 68 kynslóðina, sem nú fer að fara á eftirlaun, og mun hafa meiri tíma?

MSB: Það má vera. Mér hefur amk. alltaf fundist að það vantaði góðan bar þar sem tónlist okkar tíma væri spiluð og fólk af þessari kynslóð vissi að það gæti gengið að fólki sem það kannaðist við. Við gætum sett aldurstakmörk. Engum hleypt inn sem ekki væri orðinn 65, nema í fylgd með fullorðnum!

Ritstjórn desember 28, 2016 13:35