Nýtt lyf við Alzheimersjúkdómnum

Jón Snædal

Jón Snædal

Á Læknadögum verður sjónum beint að nýjungum sem framundan eru í meðferð og greiningu á Alzheimer-sjúkdómnum.„Við vildum beina athyglinni að tvennu í þessu sambandi. Annars vegar nýjum aðferðum við greiningu á sjúkdómnum sem gerir að verkum að núna getum við að jafnaði greint hann fyrr en áður. Þar er um að ræða tiltekin efni sem við getum mælt í mænuvökvanum og er komið inn í rútínu okkar. Einnig höfum við þróað nýja úrvinnslu úr heilariti sem gerir okkur kleift að greina sjúkdóminn fyrr og betur frá öðrum orsökum heilabilunar. Loks mun tilkoma jáeindaskannans einnig gera okkur kleift að greina sjúkdóminn fyrr og þegar þetta allt er tekið saman er betur unnt að komast að sjúkdómsgreiningu hjá fólki sem er enn á vinnumarkaði en er farið að finna fyrir byrjunareinkennum,“ segir Jón Snædal öldrunarlæknir í viðtali við Læknablaðið. Hitt sem Jón vill beina athyglinni að eru nýjir möguleikar við meðferð á Alzheimer sem virðast vera rétt handan við sjóndeildarhringinn.

„Þótt þetta sé ekki fast í hendi má segja að meiri bjartsýni sé ríkjandi nú en oft áður þegar boðaðar hafa verið nýjungar við meðferð þessa sjúkdóms. Þetta virðist vera meðferð sem byggir á því að sjúkdómurinn sé greindur snemma og því þurfum við að vera vel í stakk búin til þess því rannsóknir sýna að meðferðin hefur lítið að segja ef sjúkdómsferlið er komið vel af stað.“

Í Læknablaðinu segir Jón nýtt lyf vera á tilraunastigi við Alzheimar og vænta megi niðurstaðna  úr rannsóknum á síðari hluta næsta árs. „Ef það gengur eftir gæti lyfið verið komið á markað í Bandaríkjunum árið 2017. Það er varasamt að fullyrða of mikið á þessu stigi en dýratilraunir hafa sýnt að efnið snýr ferlinu við og þess vegna eru miklar væntingar bundnar við að hægt að sé að hafa veruleg áhrif á sjúkdómsferlið. Í dag getum við boðið upp á einkennameðferð þar sem dregið er úr þeim einkennum sem sjúkdómurinn hefur í för með sér en í sjálfu sér hafa lyfin engin áhrif á sjúkdómsferlið sjálft. Við getum hægt á framgangi sjúkdómsins tímabundið og dregið úr einkennunum, þannig að einstaklingurinn lifir ekki lengur, en við lengjum tímann sem hann er á þokkalega góðum stað í sjúkdómnum. Nýju lyfin gefa vonir um að hægt sé að grípa inn í það snemma að stöðva megi sjúkdóminn og jafnvel snúa ferlinu við og með því koma í veg fyrir að fólk lendi í því sem við köllum heilabilun. Ef það gengur eftir þá er æðimikið unnið. Við erum þó hóflega bjartsýn í ljósi reynslunnar.“

Hér er hægt að lesa viðtalið við Jón Snædal í Læknablaðinu í heild sinni.

Ritstjórn janúar 20, 2016 10:49