Óánægja með að matsalnum verði lokað um helgar

„Ég legg til að við förum í verkfall og látum ekki sjá okkur hér“, sagði reiður íbúi í Eirborgum í Grafarvogi á fundi þar sem fulltrúar frá velferðarsviði borgarinnar greindu frá því að hætt yrði að bjóða uppá mat í matsal félagsmiðstöðvarinnar Borga um helgar. Þess í stað yrði fólki boðið að fá heimsendan mat á laugardögum og sunnudögum. Yfir 100 manns hafa skrifað undir mótmæli gegn þessum breytingum. Undirskriftarlistinn hefur verið afhentur borgarráði.

70 til 100 manns í mat

Eirborgir eru öryggisíbúðir fyrir eldra fólk, sem eru reknar af hjúkrunarheimilinu Eir. Reykjavíkurborg rekur hins vegar félagsmiðstöðina Borgir sem er í áföstu húsi við Eirborgir. Þar er matsalur þar sem boðið hefur verið uppá mat í hádeginu alla daga vikunnar og þar borða um 70 manns á hverjum degi og stundum fleiri.

Átti ekki að vera opið í matsal um helgar

Það stóð ekki til að vera með mat um helgar á Borgum þegar aðstaðan þar var byggð upp enda hefur það ekki tíðkast í öðrum félagsmiðstöðvum sem Reykjavíkurborg rekur.  Almennt er miðað við að matsalir séu opnir alla virka daga, en að fólk geti fengið sendan mat heim um helgar. Undantekning frá þessu er félagsmiðstöðin á Vitatorgi, þar sem maturinn er eldaður. Þangað geta allir eftirlaunamenn komið og keypt sér mat um helgar. Á örfáum öðrum stöðum þar sem menn þurfa mikla umönnun, hefur fólk fengið mat í í matsal um helgar. Þrátt fyrir þetta var ráðist í að hafa matsalinn í Borgum opinn um helgar.

Fjármagn fylgdi ekki með

Það var Ingibjörg Sigurþórsdóttir framkvæmdastjóri Miðgarðs sem greindi frá því á fundinum með íbúum Borga að velferðarráð hefði samþykkt að hætta með sameiginlegan mat í matsalnum um helgar, en bjóða þess í stað uppá heimsendan mat. Hún sagði að þó það hefði verið ákveðið að bjóða uppá mat í matsalnum á sínum tíma, hefði aldrei verið veitt til þess fjármagni. Fjárhagsstaða borgarinnar væri ekki góð frekar en hjá öðrum sveitarfélögum og þess vegna væri ekki hægt að halda þessari þjónustu áfram. Hún sagði að breytingar væru alltaf erfiðar og það væri mikilvægt að koma saman og ræða þær.

Féllu í grýttan jarðveg

Fundurinn í Borgum

Fundurinn í Borgum

Breytingarnar féllu í grýttan jarðveg hjá íbúum Eirborga og Ásta Jónsdóttir, benti á að þegar byrjað hefði verið með mat í salnum um helgar, hefðu engin tímamörk verið sett. „Borgin er því að ganga á bak orða sinna og ef hún getur ekki rekið þetta ætti hún að láta öðrum það eftir“, sagði hún. Hún sagði jafnframt að maturinn væri félagslegt atriði og heimsendingarþjónusta gæti ekki komið í staðinn fyrir hann. „Margir eru á áttræðis, níræðis og tíræðisaldri og geta ekki annast þetta. Ég veit að þá er bent á aðstandendur til aðstoðar, en sumir eiga fáa aðstandendur og aðrir enga“, sagði hún.

Fá aðstoð með heimsenda matinn

Ingibjörg greindi frá því að allir sem ættu erfitt með að taka á móti heimsenda matnum, fengju aðstoð við það. Þeir ættu að hafa samband við matsfulltrúa sem færi í gegnum ferlið með þeim. Hún sagði líka í bígerð að koma upp föstum hittingi um helgar og það væru einnig messur í Borgum á sunnudögum þar sem fólk kæmi saman. „Við gerum ekki lítið úr því að þetta er góður félagsskapur í kringum matinn, en reynum að lágmarka skaðann eins og hægt er“, sagði hún.

6 milljónir sparast

Spurt var um hversu mikið myndi sparast á því að senda matinn heim í stað þess að framreiða hann í matsal. Fjármálastjóri Miðgarðs sagði að þar sem fé hefði ekki fylgt matnum um helgar, hefði þurft að spara annars staðar til að halda honum úti. Sá rammi sem Miðgarður hefði fengið væri að bjóða uppá matarþjónustu í sal 5 daga vikunnar og með því að breyta þessu um helgar myndu sparast hátt í 6 milljónir króna. „Eins og tímarnir eru, eru allir að reyna að ná sínum markmiðum í fjármálunum. Við erum einnig að samræma þjónustuna, þannig að ekki sé verið að mismuna fólki, eftir því hvar það býr“, sagði hann.

Hvað kosta plastumbúðirnar?

„Hvað kostar að bera þetta fram í plastumbúðum og hefur einhver reiknað út mengunina sem af því hlýst að keyra matinn heim? “ spurði einn íbúanna, fyrrverandi hússtjórnarkennari. Sjálf sagðist hún aldrei myndu bera matinn fram í plasti, það væri óboðlegt. Henni var þakkað fyrir góða ábendingu og umræða spannst um umhverfismál sem þessu tengjast.

Ingibjörg sagðist í lok fundarins óska þess að þetta gengi sem best fyrir sig og að hún myndi gera sitt besta til að svo yrði. Breytingarnar eiga að taka gildi 1. Janúar 2016.

 

Ritstjórn nóvember 27, 2015 16:54