Ólöf Rún fyrrverandi fréttamaður

Ólöfu Rún Skúladóttur þekkja margir af skjánum enda starfaði hún lengi bæði hjá RÚV sjónvarpi og útvarpi sem frétta- og dagskrárgerðarmaður auk þess sem hún vann einnig um skeið hjá Stöð 2 og fleiri fjölmiðlum. Reyndar hefur hún unnið á flestum fjölmiðlum nema dagblaði og vefmiðli. Nú eru komin hátt í 8 ár frá því hún hætti að mestu á þeim vettvangi þótt enn skrifi hún stök viðtöl í tímarit og dagblöð, en segist samt seint losna við fréttabakteríuna. Eftir að Ólöf Rún lét af daglegum störfum á fjölmiðlum skrifaði hún meðal annars viðtalsbók með eldri dóttur sinni, Hjördísi Hugrúnu, og ber bókin nafnið “Tækifærin” og er nokkurs konar hvatningabók . “Þetta voru viðtöl við fjölda íslenskra kvenna sem farið hafa í háskólanám í raungreinum og fjallað er um þau fjölbreyttu störf sem þær sinna í kjölfar þess, og um leiðina sem þær völdu til að láta drauma sína rætast,” segir Ólöf Rún og segir þetta hafa verið skemmtilegt og krefjandi verkefni. Hún bendir á að hægt sé að sjá upplýsingar um bókina á taekifaerin.is

Þegar fyrst náðist í Ólöfu Rún fyrir þetta viðtal var hún á skíðum í Austurríki og næst þegar tal náðist af henni var hún að koma frá því að “fjúka Kjóavallahringinn” á einni hryssnanna sinna eins og hún sagði hlæjandi frá. Hún hefur alla tíð verið útivistarmanneskja og hefur það vafalítið haft áhrif á að hún fór í leiðsögunám. “Lífið er á stundum tilviljunum háð sem reynast svo engar tilviljanir. Þannig var að árið 2010 langaði mig að fara í langa hestaferð eins og ég gerði talsvert á árum áður. Ég hafði samband við Einar Bollason sem þá var  hjá Íshestum og ætlaði bara að fá að fara með í ferð sem almennur reiðmaður. Einar spurði mig þá hvort ég vildi ekki bara koma með sem þræll!

Ég komst að því að það þýddi hvort ég vildi ekki koma með sem rekstrarmaður. Þannig kom það til að ég fór norður Kjöl sem rekstrarmaður með traustu fólki með hóp útlendinga af mörgu þjóðerni og á annað hundrað hrossa. Upp úr því fór ég að velta fyrir mér hvort ekki gæti verið sniðugt að bæta við mig leiðsögumannanámi. Ég fór svo í fleiri hestaferðir sem hjálparsveinka, aðstoðarfararstjóri og fararstjóri. Ýmist Gullna hringinn svonefnda eða um Snæfellsnes og Löngufjörur. Tíminn leið og lítið varð af námsáformum fyrr en eftir endurfundi menntskælinga þar sem bekkjarsystir mín ein sem áður hafði verið í verslunarrekstri  hafði vent sínu kvæði í kross og farið í leiðsögumannanám, tekið meirapróf og keyrir nú um allt með ferðamenn. Hún var svo hvetjandi að ég var búin að senda inn umsókn í leiðsögumannanámið áður en ég gat skipt um skoðun,” segir Ólöf Rún og hlær.

Síðustu þrjú misserin hefur hún því setið á skólabekk og brautskráðist nú í febrúar frá Endurmenntun Háskóla Íslands sem leiðsögumaður. Hún lagði áherslu á bæði þýsku og ensku í náminu sem hún segir að hafi verið ansi strembið og krefjandi en um leið ógurlega skemmtilegt. “Hópurinn sem brautskráðist með mér var samansettur af einstaklega skemmtilegum og áhugaverðum einstaklingum á aldrinum frá rúmlega tvítugu upp í sjötugt. Það er nefnilega aldrei of seint að setjast á skólabekk,” segir Ólöf Rún og brosir. Hún segir að það hafi verið aukabónus við að fara í skóla á ný, að kynnast skemmtilegu fólki sem var í sömu erindagjörðum og hún. Ég er búin að vinna við að tala við fólk í áratugi og held því nú áfram á nýjum vettvangi. Allt snýst þetta um mannleg samskipti. Þegar upp er staðið voru það nú ekki ráðherraviðtölin sem ég tók sem voru eftirminnilegust, heldur frekar viðtölin við áhugaverðar hversdagshetjur; við fólkið í landinu.  Forréttindi voru að fá að kynnast landi og þjóð í fjölmiðlastarfinu. Ólöf Rún segir stolt frá því að lokum að hún sé orðin þreföld amma þriggja skarpra stúlkna sem hún hafi mjög gaman af að fá að fylgjast með og sjá vaxa og dafna auk þess að fylgjast með börnunum sínum fimm og njóta stundanna.

Ritstjórn febrúar 21, 2018 06:25