Orð eru til alls fyrst

Ellert B. Schram

Ellert B Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skrifar:

Á heimasíðum Félags eldri borgara og  Lifðu núna, í síðustu viku, var sagt frá því að undirritaður fékk fundarboð frá þrem ráðherrum og umræðuefnið var að hefja samræður, með skipan nefndar, ráðuneytanna þriggja og fulltrúa eldri borgara, sem fjalla skyldi um þau málefni sem snúa að eldri borgurum. Tilefni þessa fundar var bréf frá mér til ráðherranna allra í júnímánuði. Í því bréfi voru upptalin þau málefni sem brýnust eru. Frítekjumörkin, skerðingarnar, skattamál þeirra lægst launuðu, lágmarksframfærslur, hjúkrun og heimaþjónusta, framkvæmdasjóður aldraðra og samanburður við hin norrænu kerfi, varðandi grunnlífeyri. Svo eitthvað sé nefnt af umræðumálum.

Ég sé á fésbókarsíðum og víðar að sumir leggja ekki mikið upp úr slíku nefndarstarfi og gera það að athlægi að verið sé að búa til enn eina nefnd, sem „engu“ skilar nema þá nefndarlaunum einum. Af því tilefni skal tekið fram, að hvorki ég né aðrir stjórnarmeðlimir í félagi eldri borgara í Reykjavík eru launaðir fyrir störf sín. Og svo mun enn vera þegar ráðherranefndin verður sett á laggirnar.

Ég hika ekki við að fullyrða að nefnd af þessu tagi, sem ég lagði til í bréfi til ráðherranna, á sér erindi, sem er mikils virði fyrir hagsmuni aldraðra. Orð eru til alls fyrst. Eldra fólk beitir ekki öðrum vopnum en reynslu sinni, þekkingu og málflutningi, sem skýrir og skilur þau vandamál og viðfangsefni sem snúa að hagsmunum þeirra.  Og þau eru mörg. Siðaðri og menntaðri þjóð á ekki að vera ofviða að bera saman bækur sínar, skiptast á skoðunum og tala máli sínu. Samtalið er forsenda samkomulagsins og réttlætisins. Það er kannske einfeldni af minni hálfu að vera bjartsýnn um niðurstöður. En ég hef ennþá trú á heiðarleika, samkennd og skilningi, hvort heldur það eru við, eldri borgarar eða stjórnmálafólkið okkar sem talast við.  Það er þess virði að láta á þetta reyna. Nefndina, samtalið og tillögurnar (ef einhverjar verða). Þetta mál snýst ekki um að segja öðrum fyrir verkum, líta á viðmælendur sína sem óvini og tala niður til hvers annars. Við erum öll í sama liði og viljum að núverandi eldri borgarar sem og komandi kynslóðir geti búið við áhyggjulaus ævikvöld.

 

 

Ritstjórn ágúst 21, 2017 06:52