Orlando, Mistur og Syndafallið þykja áhugaverðar

Ásdís Skúladóttir

Ásdís Skúladóttir leikstjóri skrifar

Á þrigggja vikna fresti hittist Bókmenntahópur U3A  (University of the Third Age / u3a.is) í Félagsmiðstöðinni Hæðargarði 31. Í hópnum eru miklir lestarhestar sem sökkva sér í yndislestur jafnt sem hörðustu krimma að ekki sé talað um ljóðalestur, ævisögur, alls kyns sagnfræði eða bara hvað sem er að finna í bókum. Sá háttur er hafður á að mestu að fólk kemur bara og segir frá hvað bækur það er að lesa hverju sinni og út frá því spinnast ávallt fjörugar umræður. Stundum er að vísu valið eitthvert skáld sem skal leggja áherslu á að lesa og síðan hefur hópurinn einnig fengið skáld, rithöfunda, gagnrýnendur og bókmenntafræðinga í heimsókn. En áherslan er lögð á  það sem hver og einn les, spjallað saman um hvað mönnum finnst og hópurinn er þannig sinn eigin bókmenntafræðingur.

Varðandi þær bækur sem nefndar eru jólabækurnar þá er það nú svo, að fáir hafa efni á að kaupa allar þær bækur sem þá langar til að lesa í jólabókflóðinu, kannski stelast til að kaupa svona eins og eina bók svo lítð beri á. Margir grípa til þess ráðs að skrá sig á biðlista Bókasafnanna sem er langur og les bækurnar eftir því sem þær losna á nýju ári. Sumir eru í skiptibókasambandi við vini sína og láta bækurnar sem þeir kaupa ganga á milli, aðrir eru heppnir og eiga einhvern að sem kannski bara kaupir bækur eins og ekkert sé eða er í góðum samböndum. Fram kom á fundinum að maður þyrfti að vera í efri miðstétt til að geta tekið þátt í “jólabókaæðinu” og þeir sem eru undir hnífi “skerðinganna” geta gleymt því að kaupa bækur á því verði sem nú er í boði! Bókaþjóðin er ekki eins mikil bókaþjóð og hún heldur og ekki var virðisaukaskatturinn felldur niður af af nýjum valdhöfum. Það þykir okkur vont! ekki hvað síst þegar þau tíðindi bárust að Normenn læsu fleiri bækur en við!

Síðast fundur Bókmenntahóps U3A fyrir jól var 13. desember s.l. Gestur á þeim fundi var Bjarki Karlsson  ljóðskáld, málfræðingur og kerfisfræðingur. Fyrsta ljóðabókin hans, Árleysi alda, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2013 og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki ljóðabóka sama ár. Bókin var mest selda ljóðabók ársins 2013 og sögur herma að þar hafi hann komist í þriðju röð mest seldra ljóðskálda Íslandsögunnar. Þeir sem selt hafa selt fleiri bækur en Bjarki eru Davíð Stefánsson; Svartar fjaðrir, og Hallgrimur Pétursson; Passíusálmarnir.

Uppestarhópur Soffíu Jakobsdóttur, Soffíuhópur í Hæðargarði, las upp úr verkum Bjarka við gífurlega góðar undirtektir enda ljóð hans afar sérstök. Honum er  svo sannarlega ekki stirt um stef, hann fer á kostum í kveðskapnum, stælir t.d. önnur skáld af stakri snilld en á bak við alla kátínuna  er töluverður þungi.

Hér verður að nefna þegar Bjarki gluggar aðeins dýpra í þjóðkvæðið “Afi minn fór á honum Rauð” og skoðar hvað amma er að gera heima meðan afi frílystar sig út um allar sveitir. Bjarki kallar þetta „einn afar sorglegan flokk“ um það “grátlega kynjanna misrétti sem forðum daga tíðkaðist og þekkist því miður enn”.

Hvað varðar jólabækurnar þá þá voru þær ræddar nokkuð á fundinum 29. nóvember. Þá var talað um það  sem mikið tilhlökkunarefni að lesa bækur eins og Orlando eftir Virginíu Woolf í þýðingu Soffíu Birgisdóttur, Mistur eftir Ragnar Jónasson, Syndafallið eftir Mikael Torfason, Þúsund kossar eftir Jón Gnarr, Ástu eftir Jón Kalmann Stefánsson, Smartís eftir Gerði Kristnýju og Uppreisnarmenn Frjálshyggjunnar sem fékk afskaplega góða umfjöllun fundarmanna. Ekki voru allir jafn hrifnir af Grænmetisætunum og kusu heldur að beina athygli fólks að Sakarmentinu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson sem væri afskaplega forvitnileg bók ásamt með bók Silju Aðalsteinsdóttur; Allt kann sá er bíða kann. Aðrir voru fyrir löngu búnir að kaupa sér Arnald eða Yrsu og hugsuðu sér gott til glóðarinnar að lesa Soninn eftir Jo Nesö á jólanótt Þó sumir væru á því að yndislestur  á Sögum frá Rússlandi í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur ættu betur við á jólanótt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 18, 2017 13:52