Óþægilega kunnugleg staða

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Það fór léttur hrollur um mig, þegar fyrstu fréttir bárust af því um daginn, að verð á hlutabréfum hefði fallið mikið í Kína, með þeim afleiðingum að markaðir nötruðu víða. Hrollurinn stafaði þó ekki af þessum viðburði sem slíkum. Enda eiga flestir að vita það nú, eftir það sem á undan er gengið, að verð á hlutabréfum fer upp og niður á víxl. Það er bara eðlið. Nei, þetta var ekki ástæðan fyrir hrollinum. Ástæðan var fréttaflutningurinn. Þetta var eitthvað svo óþægilega kunnuglegt.

Allt í einu voru allir fréttatímar uppfullir af tölum og prósentum og frásögnum af því hvað hin eða þessi hlutabréfavísitalan hefði lækkað mikið þennann eða hinn daginn. Svo var það rúsínan í pylsuendanum, sem reyndar gerði útslagið. Upp á dekk mættu sömu, eða að minnsta kosti afskaplega svipaðir, svokallaðir sérfræðingar. Þetta voru þeir sem fóru mikinn fyrir bankahrunið haustið 2008, en hurfu nánst um tíma eftir það. Þeir eru því mættir aftur þessir gæjar, eða að innsta kosti einhvers konar útgáfur af þeim. Og eins og áður, þá eru þeir fullir af visku, en segja auðvitað aldrei nokkurn skapaðan hlut sem máli skiptir. Útkoman virðist ansi oft vera sú, að það séu svona helmingslíkur á að þetta eða hitt gerist. Þetta er gáfulegt. Hvernig ættu þeir svo sem að geta sagt eitthvað sem skiptir máli? Þeir vita auðvitað ósköp fátt. Það má reyndar virða það við þessa náunga, að þeir eru að reyna. En það á auðvitað alls ekki að taka þá of alvarlega. Ekki frekar en til dæmis þegar húsnæðismálaráðherrann mætir næst og lofar öllu fögru einu sinni enn. Þetta eru grundvallaratriði sem fjölmiðlamenn fara vonandi að koma auga á, og að þeir fái í framhaldinu tækifæri til að sinna eftirlitshlutverki sínu í ríkara mæli en hingað til í stað þess að kóa bara með.

Sumir eru svartsýnir vegna þess sem er að gerast í Kína, og telja hugsanlegt að framundan geti verið annað hrun í líkingu við það síðasta. Aðrir eru bjartýnni, eins og gengur. En það er annað sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Þó fréttamenn séu kannski allir af vilja gerðir, þá verður að segjast, að það læðist að sá grunur, að lítið hafi breyst frá því sem var. Siðfræðihópur rannsóknarnefndar Alþingis komst að þeirri niðurstöðu vorið 2010, að fjölmiðlar hér á landi hefðu sinnt illa hlutverkum sínum í aðdraganda bankahrunsins. Ekki er hægt að sjá að mikið hafi breyst í þeim efnum. Og þegar horft er yfir sviðið í heild sinni, þá virðast ansi margir helst bara vilja gleyma hruninu. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu.

 

 


Grétar Júníus Guðmundsson ágúst 28, 2015 11:52