Óvænt dauðsföll á sjúkrastofnunum

Kristján Þór Júlíusson

Kristján Þór Júlíusson

Starfshópur sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skipaði í janúar til að móta tilögur um verklag í tengslum við tilkynningar og rannsókn óvæntra dauðsfalla sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð sjúklings, hefur skilað ráðherra tillögum sínum.

Öll óvænt, alvarleg atvik og óvænt dauðsföll ber að tilkynna til Embættis landlæknis samkvæmt lögum. Tilgangurinn er einkum sá að embættið geti rannsakað slík mál til að finna á þeim skýringu og tryggja eftir því sem kostur er að sambærileg atvik endurtaki sig ekki. Í lögum er einnig fjallað um tilkynningarskyldu til lögreglu vegna óvæntra dauðsfalla á heilbrigðisstofnunum eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks.

Ákæra gefin út í einu máli

Síðastliðin 15 ár hafa lögregla og ákæruvald haft innan við tíu mál til meðferðar vegna óvæntra, alvarlegra atvika og óvæntra dauðsfalla innan heilbrigðisþjónustunnar. Ákæra var gefin út í einu máli. Í skýrslu starfshópsins segir að vegna þeirrar staðreyndar að í tiltölulega fáum tilkynningum um óvænt, alvarleg atvik og óvænt dauðsföll í heilbrigðisþjónustu felast aðstæður þar sem grunur er um að ástæða atviks stafi af háttsemi sem felur í sér refsiábyrgð sé æskilegt að lögregla hefji aðeins rannsókn í málum sem fengið hafa rannsókn hjá færustu sérfræðingum sem völ er á.

Helstu tillögur starfshópsins í stuttu máli:

  • Velferðarráðuneytið vinni reglugerð um viðbrögð og rannsókn Embættis landlæknis á óvæntum, alvarlegum atvikum og óvæntum dauðsföllum.
  • Ríkissaksóknari gefi út fyrirmæli til handa lögreglu um rannsókn óvæntra, alvarlegra atvika og óvæntra dauðsfalla.
  • Unnar verði verklagsreglur hjá Embætti landlæknis og lögreglu þar sem samstarf þessara stjórnvalda verði nánar útfært varðandi rannsókn óvæntra, alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu og óvæntra dauðsfalla.
  • Mælt er með því að Embætti landlæknis og lögregla skipuleggi samstarf um rannsóknaraðgerðir, til dæmis með því að koma á fót vettvangsrannsóknarteymi.
  • Skýra þarf nánar í lögum hvaða óvæntu dauðsföll ber að tilkynna til lögreglu.
  • Skapa þarf grundvöll innan heilbrigðisþjónustunnar til að geta áfram unnið gæða- og umbótastarf og að upplýsingar sem aflað er í þeim tilgangi verði ekki aðgengilegar öðrum stjórnvöldum.
  • Tekið verði upp samræmt og samtengt skráningakerfi um skráningu, úrvinnslu og eftirfylgd atvika um allt land.
  • Innanríkisráðuneytið taki til skoðunar hvort rétt sé að bæta ákvæði um cumulativa hlutlæga refsiábyrgð í almenn hegningarlög.
  • Embætti landlæknis og lögreglu verði tryggt fjármagn til að ráðast í aðgerðir til að bæta verklag á þessu sviði.

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Landspítala og Embætti landlæknis en hópurinn kallaði einnig til fundar við sig fulltrúa frá lögreglunni, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og frá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

 

Ritstjórn september 7, 2015 11:00