Raðhúsið of stórt fyrir tvo

Við erum að svipast um og viljum gjarnan minnka við okkur“, segir Björn Þorvaldsson tannlæknir sem býr ásamt eiginkonu sinni Kristbjörgu Kjartansdóttur í tveggja hæða raðhúsi á Seltjarnarnesi, en það er 240 fermetrar. „ Við erum bara tvö heima og húsið er orðið alltof stórt fyrir okkur, þetta eru átta  herbergi“, segir Björn.  Hann segir að þau hafi aðallega verið að skoða íbúðir í nýbyggðum fjölbýlishúsum með lyftu og plássi fyrir bíl og helst útsýni, enda orðin góðu vön. En séu þetta ný hús sem eru miðsvæðis, sé verðið bara þannig að þau geti ekki skipt á sléttu. „Þó við minnkum við okkur um helming þá eru íbúðirnar orðnar jafn dýrar og jafnvel dýrari en það verð sem við fáum fyrir þetta hús“.

Kristbjörg og Björn hafa búið í raðhúsinu í áratugi en nú er það orðið of stórt

Rúmar stofan 17 manns?

Þau Björn og Kristbjörg hafa skoðað töluvert af teikningum og tölvumyndum af nýjum íbúðum og þeim finnst þar oftast lítið pláss ætlað fyrir stofu og borðstofu.  „Við viljum geta tekið á móti gestum og þegar fjölskyldan er orðin stærri með börnum og barnabörnum vill maður geta tekið á móti þeim þannig að það sé hægt að sitja til borðs og sitja saman inní stofu. Þá er þetta orðið ansi þröngt“, segir Björn, en þegar öll fjölskyldan er samankomin hjá þeim eru það 17 manns.

140 fermetra íbúð á 93 milljónir

Þau hafa skoðað íbúðir á Nesinu á Hrólfsskálamel og fundist þær dýrar.  Þau hafi líka skoðað íbúðir í Garðabæ, Reykjavík og Kópavogi. „ Okkur ofbauð þegar skoðuð var 140 fermetra íbúð í Garðabæ sem átti að kosta 93 milljónir. Þetta var reyndar mjög snyrtileg íbúð á sjávarbakkanum þar með mjög góðu útsýni, reyndar fullstór fyrir okkur“.  Sumar íbúðirnar séu langt frá bænum og þá sé verðið eitthvað lægra. „Maður getur kannski látið sig hafa það“, segir hann.  Það sé líka hægt að kaupa eldra húsnæði og sjálfsagt sé hægt að detta ofaná eitthvað ef þau fari að leita fyrir alvöru. „Við höfum ekki enn sett húsið í sölu, en höfum látið verðmeta það“.

Heilsubótarvinna í garðinum

Björn segir að það sé ekki orðið aðkallandi fyrir þau að minnka við sig og  þau ráði enn við að búa í húsinu, ef ekki komi til mikið viðhald.  þau hafi ekki enn fengið fasteignasala með sér í að leita að íbúðum. „En það endar með því að við fáum einhvern í þetta með okkur“, segir hann.  „Það væri hins vegar æskilegt að minnka við sig og fá eitthvað á milli til að bæta við lífeyrinn. Jafnvel létta eitthvað undir með börnunum“. Hann segir þau orðin svolítið þreytt á að sjá um garðinn og alltaf sé eitthvert viðhald á húsinu. „Maður getur þó auðvitað litið á þetta sem heilsubótarvinnu á meðan maður er ekki orðinn of gigtveikur“, segir hann og hlær.

Vilja frekar vera miðsvæðis

Björn og Kristbjörg eru bæði á áttræðisaldri og komin á eftirlaun. Björn segir að þau ferðist talsvert, lesi mikið, horfi á sjónvarp, fari á bíó, tónleika og leikhús. Líti stundum til með barnabörnum og fari líka í leikfimi, göngutúra og myndlistarnámskeið og hafi nóg að gera. „En við förum sennilega að spá í íbúðakaupin með vorinu“, segir hann og bætir við að þau vilji frekar vera miðsvæðis í borginni, tvö barnanna þeirra búi í vesturbænum og eitt inní Heimum. Það vaxi þeim svolítið í augum að búa þannig að það þurfi að fara allra sinna ferða á bíl.

Ritstjórn febrúar 23, 2017 11:11