Ræðum krabbameinið af hreinskilni

Sigrún Lillie Magnúsdóttir

Mörgum reynist erfitt að ræða við aðstandanda eða vin sem hefur greinst með krabbamein. „Fólki er annt um þann sem hefur greinst og vill alls ekki íþyngja honum eða særa, en það er mikilvægt að ræða opinskátt um  krabbameinið. Það er gott að láta í sér heyra þannig að viðkomandi finni að þú ert til staðar fyrir hann/hana í þessum aðstæðum, annað hvort með því fara í heimsókn eða hringja“, segir Sigrún Lillie Magnúsdóttir forstöðukona Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. „Það er mikilvægt að vera heiðarlegur og færa í orð á nærgætinn hátt, það sem maður sér og heyrir. Það er hægt að spyrja, get ég eitthvað gert? Eða segja að maður vilji vera til staðar ef á þurfi að halda“, bætir hún við.

Að spyrja og hlusta

„Það er líka hægt að gefa krabbameinssjúklingnum val í samtalinu“, heldur Sigrún áfram. „Spyrja á þessa leið, finnst þér óþægilegt að ég sé að ræða þetta? Á ég að hringja í þig, eða vilt þú hringja í mig? Á ég að koma í heimsókn, eða viltu að ég komi seinna? Það er svo mikilvægt að ræða um það sem maður er að velta fyrir sér og forðast hugsanalestur. Ef við styðjumst við  hann eru niðurstöðurnar yfirleitt alltaf rangar“, segir hún.  Hún segir að það sé gott að spyrja viðkomandi hvernig honum líður, en kannski ekki ef maður er ekki tilbúinn til að hlusta eða í aðstæðum sem bjóða ekki upp á samtalið t.d. í partýi eða í fjölmenni. Það sé ekki rétti staðurinn til að ræða slíkt. „Þetta er flókið, en það er best að vera heiðarlegur og það á við um alla. Líka börnin, að leyfa þeim að taka þátt og vera með, þannig eykst skilningur þeirra á því sem er í gangi, þegar fjölskyldan stendur frammi fyrir alvarlegum veikindum. Það þarf líka að ræða við börnin af hreinskilni, miðað við þroska þeirra og aldur“.

Ekki verkefni fyrir einn

Þegar einhver í fjölskyldu greinist með krabbamein, er fólk komið inní nýjar oftast óþekktar aðstæður og hefur ekki fengið neinn undirbúning.  Sigrún er óþreytandi að minna á hvað það er mikilvægt að tala um hlutina og það hvernig manni líður  „Það er mikilvægt að færa upplifunina í orð og leiðrétta mistúlkanir. Þettta er ekki verkefni fyrir neinn, einn. Þetta er samvinna á alla kanta og það getur verið gott fyrir aðstandendur að fara með þeim veika til læknis. Þá fá allir sömu upplýsingar og  geta talað útfrá sama grunni. Menn skilja hlutina að vísu oft á mismunandi hátt, en það er auðveldara að komast að niðurstöðu um málin, þegar allir eru á sömu blaðsíðu“, segir hún.

Aðstandendur þurfa líka stuðning

„Hvort sem um er að ræða, maka, dóttur, son eða foreldri, þarf þetta fólk jafn mikinn stuðning og sá sem hefur greinst með krabbamein“, segir Sigrún. „Stundum sér maður þegar fólk er búið í meðferðinni að upplifunin hjá aðstandendum er önnur. Þá sjá þeir hvað þetta var erfitt. Þeir hafa kannski staðið sig mjög vel í gegnum greiningu og meðferð en þegar henni er lokið, verður spennufall og þá geta aðstandendurnir þurft að fá aðstoð. Þeir þurfa alveg jafn mikið á henni að halda og sjúklingurinn“.

Sumir eiga erfitt með að stíga yfir þröskuldinn

Sigrún segir misjafnt hversu duglegt fólk er að leita til Ráðgjafarþjónustunnar. „Það er mikilvægast að fólk komi þegar það er tilbúið. Það reynist mörgum erfitt að stíga yfir þröskuldinn hér. Því um leið og menn taka ákvörðun um að koma, eru þeir að viðurkenna að þeir þurfi aðstoð. Það er óhætt, við erum hér til að aðstoða og það er ótrúlega margt hægt að gera til að létta undir við þessar aðstæður“.

Ritstjórn nóvember 14, 2017 10:44