Ræðum styrkleika hvers og eins í fjölskyldunni

Hverjir skyldu vera þínir helstu styrkleikar? Hvað finnst þér, og hvað finnst fólkinu í kringum þig? Þetta er  nokkuð sem Íslendingum er ekki tamt að ræða, hvorki í einkalífi né úti í atvinnulífinu. Vitum við eitthvað um það hverjir eru okkar helstu kostir og gallar?  Við, kannski sérstaklega við sem erum af eldri kynslóðinni, ólumst ekki upp við að hrósa hvert örðu, eða segja samferðafólkinu hvað okkur finnst um það.

Lét gera 50 styrkleikakort

Það er hægt að bæta úr þessu með því að setjast niður, hvort sem er heima eða í vinnunni með svokölluð styrkleikakort og ræða innihald þeirra. Edda Björgvins er höfundur 50 skemmtilegra styrkleikakorta sem nú er hægt að nálgast á vefsíðunni www.styrkleikar.is   Aftan á fallegum spilastokk sem geymir kortin segir þetta um hlutverk þeirra.

Styrkleikakort eru notuð um allan heim til að byggja upp einstaklinga og bæta samskipti. Allar manneskjur geta haft bæði gagn og gaman af þessum fallegu kortum, fullorðnir, börn, fagaðilar og leikmenn.

Ekki hægt að bjóða uppá ensk styrkleikakort hér

Edda segir að upphaf kortanna megi rekja til þess að hún fór í jákvæða sálfræði í Háskólanum. „Þar var mjög merkileg rússnesk kona Iliona Boniwell sem kenndi okkur allt um styrkleika. Hún hafði hannað styrkleikakort til að nota í þerapíu og er ein fjögurra fræðimanna sem hafa gert það. Þetta voru kort sem nýttust vel, bæði í skólanum og inní fyrirtækjum. En þau eru á ensku og það er ekki hægt að bjóða fólki uppá að geta ekki lært þetta á sínu eigin tungumáli“, segir Edda sem vatt sér í það að bæta úr þessu og útbúa 50 skemmtileg styrkleikakort á íslensku.

Hér má sjá nokkur af styrktarkortunum. Hvað passar best við þig?

Skemmtilegt að nota kortin með vinum og vandamönnum

Þó kortin séu notuð í þerapíu, á vinnustöðum og víðar, geta fjölskyldur og vinahópar einnig notað þau á ýmsan hátt og haft bæði gagn og gaman af. „Ég þekki fólk sem hefur gert þetta með börnunum sínum og barnabörnunum. Það styrkir unga fólkið að vita hvaða styrkleikum það býr yfir og hvaða styrkleikar það eru sem það vantar. Það var líka mjög gaman að við stórfjölskyldan reyndum þetta, völdum stykleika fyrir hvert annað og okkur sjálf. Allir aldurshópar hrifust með og voru snortnir“ segir Edda.

Svona eru hægt að nota kortin

Leikurinn með styrktarkortin getur gengið út á að draga eitt spil, einn styrkleika, sem hópurinn á síðan að ræða um og finna út hver í hópnum það er sem í ríkustum mæli býr yfir honum. Önnur leið er að hver og einn velur þann styrkleika sem hann heldur að hann hafi. Aðrir í hópnum velja síðan fyrir hann þá styrkleika sem þeir telja hann búa yfir. „Ég vel kannski kjark eða kærleik“, segir Edda. „Ef ég er með 10 öðrum þá velja þeir hver og einn eitt spil fyrir mig og þá er ég ekki eingöngu með spilið sem ég valdi, heldur 10 til viðbótar með fallegum orðum sem sýna hvernig aðrir sjá mig“.

Bætir samskipti

Edda segir að kortin geti aukið víðsýni og umburðarlyndi og bætt samskipti á vinnustað. „Ef menn eiga til dæmis að finna styrkleika hjá einhverjum sem þeim líkar ekki við, þurfa þeir að meta málin uppá nýtt og finna eitthvað sem er jákvætt við viðkomandi. Andrúmsloftið batnar,fólk verður jákvæðara í garð hvers annars og sýnir meiri þolinmæði í öllum samskiptum.  Þetta er skemmtileg vinna og fólk nýtur hennar í botn. Okkur er ekki lagið að hrósa hvert öðru, við erum ekki alin upp við það og skólakerfið hefur ekki tekið þetta upp. En þetta er frábær þjálfun í að verða betri manneskja og bæta sig. Skólakerfið gæti bætt svo miklu við, með því að nota þetta“.

 

 

Ritstjórn júlí 26, 2018 15:34