Réttarbót fyrir lífeyrisþega

Verði tillögur starfshópsins að veruleika gæti hagur eldra fólks vænkast.

Verði tillögur starfshópsins að veruleika gæti hagur eldra fólks vænkast.

Starfshópur um endurskoðun almannatryggingakerfisins skilaði nýlega af sér skýrslu. Helstu tillögur starfshópsins eru þessar:

Einföldun bótakerfisins
Bætur almannatryggingakerfisins verði einfaldaðar m.a. með því að taka upp einn lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Markmiðið er að einfalda bótakerfið og festa í sessi þá lágmarksupphæð sem framfærsluuppbót tryggir þeim tekjulægstu í núverandi kerfi. Nefndin leggur til að hækkanir á fjárhæðum bóta almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna. Útreikningar sýna að tillögurnar munu færa allflestum lífeyrisþegum mikla réttarbót.

Hækkun lífeyrisaldurs
Lífeyrisaldur hækki í skrefum, frá 67 ára aldri til 70 ára aldurs. Miðað er við að tveir mánuðir bætist við lífeyristökualdurinn árlega á næstu tólf árum. Eftir það bætist við einn mánuður á ári í næstu tólf ár, þar til 70 ára viðmiðinu hefur verið náð eftir 24 ár frá gildistöku breytinganna.

Sveigjanleg starfslok og starfslokaaldur
Heimilt verði að fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs. Einnig verði heimilt að flýta töku lífeyris en hún geti þó ekki hafist fyrr en við 65 ára aldur. Miðað er við að frestun lífeyris veiti rétt til varanlega hærri lífeyris frá almannatryggingum en ef lífeyristöku er flýtt lækki lífeyririnn.

Afnám víxlverkana í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða
Lífeyrissjóðir hætti að skerða greiðslur til öryrkja vegna tekna þeirra frá almannatryggingum, samhliða innleiðingu starfsgetumats og sameiningu þriggja bótaflokka. Forsenda þessa er að framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða verði endurskoðað.

Starfsgetumat og endurhæfing
Tekið verði upp starfsgetumat í stað núgildandi læknisfræðilegs mats á örorku. Matskerfið miðist við tvö þrep, þ.e. verulega skerta starfsgetu í fyrsta þrepi (26 – 50%) og lítil sem engin starfsgeta í öðru þrepi (0 – 25%). Samhliða verði teknar upp hlutabætur úr almannatryggingum.

Bókun Landssambands eldri borgara

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

Með skýrslunni fylgir eftirfarandi bókun frá Landssambandi eldri borgara sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fulltrúi í starfshópnum  og Haukur Ingibergsson formaður LEB stóðu að. „Landssamband eldri borgara tekur heilshugar undir það markmið endurskoðunarinnar að fækka bótaflokkum, einfalda kerfi almannatrygginga og gera það skiljanlegra  fyrir notendur.  Með þessum tillögum er verið að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn flokk ellilífeyris. Með því er framfærsluuppbótin sem er félagslegur stuðningur færð í flokk ellilífeyris. Þarna hafa verið afar mismunandi skerðingarákvæði m.a. 100% skerðing á framfærsluuppbót gagnvart öllum öðrum tekjum. Lagt er til að skerðing á hinum nýja ellilífeyri verði 45%  vegna annarra tekna og engin  frítekjumörk.

Vildu lægri skerðingarprósentu

Landsamband eldri borgara hefði viljað sjá lægri skerðingarprósentu en 45% og lagði fram tillögu um það. Í henni er  vitnað til þess að í nágrannlöndum okkar er skerðing vegna annarra tekna ýmist engin samanber atvinnutekjur lífeyrisþega  hjá Norðmönnum, eða 30% eftir frítekjumarki atvinnutekna, eins og hjá Dönum. Við leggjum til að með batnandi efnahag landsins verði unnið að því að lækka skerðingarákvæði á lífeyrisgreiðslum í áföngum á næstu árum. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að hækka lífeyristökualdur í 70 ár á 24 árum og það höfum við samþykkt.  Jafnframt að starfsaldur og lífeyristaka verði sveigjanlegri, m.a. að hægt verði að taka 50% lífeyri og stunda 50% vinnu.  Þá taki hinn geymdi lífeyrir hækkun mánaðarlega samkvæmt tryggingafræðilegu mati, allt að 80 ára aldri lífeyrisþegans. Einnig hefur því verið beint til samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda að hækka starfsaldur opinberra starfsmanna  í 75 ár.

Starfsgetumat í stað örorkumats

Haukur Ingibergsson

Haukur Ingibergsson

LEB lýsir sig fylgjandi því að tekið sé upp starfsgetumat í stað örorkumats.  Útfærsla á því verði unnin í nánu samráði við ÖBÍ og taki gildi í áföngum. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að það geti tekið um 15 ár að innleiða það að fullu. Í þeim útreikningum sem starfshópurinn hefur fengið bæði frá fulltrúa Tryggingarstofnunar og  Talnakönnunar munu þær breytingar að sameina bótaflokka og hafa 45% skerðingarhlutfall fyrir allar tekjur aðrar, leiða til hækkunar fyrir lífeyrisþega, nema þá sem hafa atvinnutekjur. Því leggjum við til að áfram verði í gildi frítekjumark hvað varðar þær tekjur. Með þessum breytingum sem lagðar eru til er verið að skapa hvata til meiri þátttöku lífeyrisþega á vinnumarkaði, bæði öryrkja og eldri borgara ef heilsa og geta leyfir og sá hvati verður þá að vera fyrir hendi hvað varðar atvinnutekjur. Þá leggjum við til að endurskoðunarákvæði verði  um þær breytingar sem gerðar verða á lögum um almannatryggingar í framhaldi af  skýrslu starfshópsins. Sú endurskoðun færi fram eftir 3-5 ár.“

 

Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild

Ritstjórn mars 2, 2016 11:48