Reykjavík verður aldursvæn borg

Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson

Reykjavík verður aldursvæn borg, en umsókn borgarinnar þar um var samþykkt af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í vikunni. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá þessu og sagði; „í því felst m.a. að tryggja góðar gönguleiðir, húsnæði, aðgengi, heilsugæslu, félagslega þátttöku, upplýsingaflæði, samfélagslega þátttöku og atvinnu fyrir eldri borgara. Þarna er á ferðinni mikilvægt lífsgæðamál“.

Byggist á þáttöku eldra fólks

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin stofnaði net aldursvænna borga árið 2006, til að örva upplýsingamiðlun og sameiginlegan lærdóm borga sem vilja einsetja sér að skapa kjöraðstæður fyrir eldra fólk. 33 borgir voru stofnfélagar, en þeim hefur fjölgað síðan. Lögð er áhersla á víðtækt samstarf og þátttöku eldri borgara í uppbyggingu aldursvænna borga. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir meðal annars um verkefnið.

Reykjavík vill vera aldursvæn borg sem tekur mið af þörfum eldri borgara.  Ætlunin er að hrinda í framkvæmd ýmsum aðgerðum sem miða að því að gera Reykjavíkurborg aðgengilega, aðlaðandi og hentuga fyrir eldri íbúa. Sérstaklega var horft til þessara þátta við gerð stefnu í málefnum eldri borgara til ársins 2017. Samþykki umsóknarinnar markar því upphafið að því takmarki að Reykjavík uppfylli þau skilyrði sem Alþjóða heilbrigðimálastofnunin setur aldursvænum borgum.

Bindur miklar vonir við verkefnið

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni fagnar því að Reykjavík verði aldursvæn borg. „Þarna er stigið stórt skref og ég bind miklar vonir við það, þannig að raddir eldri borgara um þau mál sem þá varða heyrist. Þetta gildir um allt umhverfið, heilsuna og önnur mál sem tengjast því að eldast í borginni. Ég held að þegar raddir eldra fólksins fari að heyrast, aukist virðing þeirra og sjálfsmat.“

 

Ritstjórn júní 12, 2015 12:04