Reyni að vera góður afi

Ellert B Schram fyrrverandi alþingismaður á 7 börn, 10 barnabörn og eitt langafabarn.  Hann þurfti í gær að fara af fundi hjá félagi eldri borgara, klukkan fjögur til að sækja Magdalenu 3ja ára dótturdóttur sína á leikskólann. „Svo tók við annar leikskóli þegar við komum heim og sú stutta stjórnaði mér með harðri hendi, segir Ellert.  „Fyrst fórum við í mömmuleik, svo hélt hún tónleika og söng og spilaði á gítar. Þar næst skipaði hún mér upp í rúm og breiddi yfir mig teppi og slökkti ljósið.  Eftir 10 sekúndur sagði hún „Gaggalagú, það er kominn dagur“ og þá var ekkert annað í stöðunni en að drífa sig aftur á fætur. Þetta þurfti ég allt að láta yfir mig ganga“, segir Ellert og segist hafa haft gaman af.

Gaman að fylgjast með þroska barnanna

Ellert segir sérstaklega gaman að fylgjast með þroska barnabarnanna, hvernig orðaforði, skilningur, tilfinningar og allt annað myndast og lærist. Börn hafi límheila hvað varðar minni og atferli. „Það er eins gott að missa ekki eitthvað ljótt út úr sér“, segir hann. „Skammir eða blótsyrði. Það er allt haft eftir manni. Það gerir sakleysið og einlægnin. Þess vegna er líka svo gott að umgangast börn. Maður verður ungur aftur“.

Öðruvísi með eigin börn

Ellert segist ekki geta hrósað sér af því að hafa verið upptekinn af eigin börnum, þ.e.a.s. eldri börnunum. „Mamma þeirra sá að mestu um uppeldið. Þannig var það í þá daga, karlinn var á vinnumarkaðnum, konan var heima. Lífsbaráttan gekk út það hjá mér á þessum árum að koma mér fyrir í starfi,  ég var upptekinn við að koma mér fyrir í lífinu, kaupa íbúð, borga skuldir, taka við nýju starfi og standa mig í því. Aftur og aftur. Ég veit að ég stóð mig betur með yngri börnin hvað þetta varðar, enda orðinn fimmtugur“.  Ellert bætti við í gamansömum tón, að hann segist stundum halda því fram að fólk fái kynhvötina of snemma. „Það er of snemmt að verða foreldrar um tvítugt, svo finnur fólk út, að það á ekki samleið og þá hefst nýtt basl“, segir hann.

Má ekki klikka á afmælunum

Það er mál að halda utanum hóp afkomenda og Ellert segir mikilvægt að skrifa niður hjá sér afmælisdaga. „Maður má ekki klikka í því að muna eftir afmælunum“. Hann segir að hjá þeim hjónum, Ágústu og honum, sé alltaf opið hús fyrir afkomendurna, þeir séu alltaf velkomnir og viti af því. „Ég er að reyna að vera góður afi.“

 

 

Ritstjórn janúar 14, 2016 12:37