Ríkir lifa miklu lengur en fátækir

Lífslíkur ríkra dana eru mun meiri en þeirra fátækustu. Nýlega var sýnd heimildamyndin „En syg forskel“  á DR 1 þar sem þetta kom fram. Að meðaltali lifir ríkasti hluti þjóðarinnar tíu árum lengur en sá fátækasti. Þetta er tvöfalt meiri munur en fyrir aldarfjórðungi. Prófessor Knud Juel hjá dönsku Lýðheilsustofnuninni segir að það sé tvennt sem skýri mun á lífslíkum ríkra og fátækra, reykingar og drykkja. Fátækir deyja oftar af sjúkdómum af völdum óhóflegrar drykkju og sjúkdómum sem tengjast reykingum, segir Juel. Það er þó einungis hluti skýringarinnar ef enginn reykti og enginn drykki væri samt munur á ævilíkum þessara hópa en hann væri tvöfalt minni en í dag. Ójöfnuður er talinn hafa aukist í dönsku samfélagi á síðustu árum. Aðrir þættir sem taldir eru skýra mun á lífslíkum er betra matarræði, meiri hreyfing og betri aðgangur hinna ríku að læknisþjónustu. Auk þess sem hinir ríku hafa oftar betri menntun en þeir sem berjast í bökkum.  Lifðu núna er ekki kunnugt um að rannsókn hafi verið gerð á Íslandi á lífslíkum fátækra og ríkra en vissulega væri fróðlegt að sjá hvort að efnahagur hefur jafn mikil áhrif á lífslíkur og í Danmörku.  Mbl.is birti hins vegar frétt um miðjan apríl þar sem sagði að eftir því sem menn yrðu ríkari yrðu þeir jafnframt líklegri til þess að lifa lengur og njóta betri heilsu. „Þetta eru niður­stöður nýrr­ar rann­sókn­ar sem fram­kvæmd var á veg­um Ur­ban stofn­un­ar­inn­ar í Banda­ríkj­un­um en gögn­in voru feng­in frá heil­brigðis­yf­ir­völd­um. Í rann­sókn­inni kem­ur fram að mun sterk­ari tengsl séu á milli tekna og heilsu en kynþátt­ar og heilsu. Banda­ríkja­mönn­um var skipt upp í fimm tekju­hópa og urðu lífs­lík­urn­ar ávallt betri eft­ir því sem tekj­urn­ar urðu hærri. Niðurstaðan var sú sama nán­ast al­gjör­lega óháð sjúk­dóms­ein­kenn­um. Í rann­sókn­inni seg­ir að ástæðurn­ar fyr­ir þessu séu nokkr­ar. Sú veiga­mesta er hins veg­ar að fjár­sterk­ir aðilar eiga al­mennt greiðara aðgengi að betri heil­brigðisþjón­ustu. Þá er heim­il­um þeirra einnig oft­ast bet­ur viðhaldið. Í ann­arri rann­sókn kom fram að tekju­lág­ir séu lík­legri til þess að vera stressaðir, áhyggju­full­ir, þung­lynd­ir og reiðir held­ur en þeir ríku. Auk þess sem tekju­lág­ir eru lík­legri til þess að þjást af svefn­leysi, en allt þetta hef­ur áhrif á heilsu­far manna,“ sagði í frétt Mbl.is en hana er hægt að nálgast hér.

 

 

Ritstjórn maí 31, 2016 13:44