Rut Helgadóttir ritstjóri og blaðamaður

“Gríptu daginn” ættu vel við sem einkunnarorð Rutar Helgadóttur sem hefur farið langt á góða skapinu. Margir muna eftir þessari brosmildu konu í hlutverki ritstjóra Gestgjafans sem hún gegndi á tíunda áratugnum með glæsibrag. Hver man ekki eftir kökublaðinu góða sem varð til í ritstjóratíð Rutar og er enn eitt af vinsælustu tölublöðum tímaritsins.

Eftir að Rut lét af störfum sem ritstjóri Gestgjafans hefur hún fengist við ýmislegt en flest hafa störf hennar tengst mat á einn eða annan hátt. Eftir tveggja ára hlé frá blaðamennsku bauðst Rut ritstjórastarf tímaritsins Húsfreyjan sem hún segir hafa verið mjög lærdómsríkt, meðal annars af því að í starfinu hafi hún fengið innsýn í störf kvenna og kvenfélaga um allt land. En eftir þrjú ár í því starfi ákvað Rut að vinna frekar í lausamennsku, tók m.a. að sér að sjá um nokkur sérblöð Morgunblaðsins ásamt því að reka litla veisluþjónustu. Næsta verkefni Rutar var að ritstýra bókaflokki sem nefndist Lærum að elda og bókaútgáfan Edda gaf út.

Svo kom hrunið

Þegar starfinu hjá Eddu útgáfu lauk var komið að efnahagshruni okkar Íslendinga. Þá segist Rut hafa orðið skelkuð því hún vissi sem var að þar sem hún hefði verið í lausamennsku í mörg ár myndi atvinnutilboðum fækka og það gekk eftir. Þau hjónin höfðu byggt hús úti á Álftanesi sem þau höfðu nýverið selt og voru flutt til dóttur sinnar á meðan þau voru að átta sig á næsta skrefi.

Kanntu að elda?

“Mér leið illa á þessum tíma og fann fyrir óöryggi eins og öll þjóðin þegar forsætisráðherrann bað Guð um að blessa Ísland.” Rut vissi sem var að ekki þýddi að leggjast í sorg og sút þótt á móti blési og segist hafa lært um ævina að vandamálin hefðu tilhneigingu til að leysast og viti menn: “Þar sem ég var að fletta Morgunblaðinu daginn eftir að við komum úr kórferðalagi þann 6. október og fengum þær fréttir að allt væri hrunið rak ég augun í auglýsingu frá Fíton auglýsingastofu og við mér blasti spurningin “kanntu að elda?” og símanúmer með. Ég tók upp símann og hringdi með það sama, fór í viðtal og fékk vinnuna. Þar var ég í tvö ár matselja að elda fyrir ótrúlega skemmtilegan hóp sem samanstóð af ungu og skapandi fólki. Vinnustaðurinn var einstaklega líflegur og ég komst að því að það var misskilningur að allt ungt fólk vildi bara grænmetisbuff og salöt. Mér þótti ógurlega gaman að bjóða þeim upp á bjúgu með uppstúfi og kjötbollur í brúnni af því ég fékk svo jákvæð viðbrögð og stundum meira að segja mömmuknús. En þau fengu auðvitað líka hollar grænmetismáltíðir að hætti nútíma matargerðar.”

Stofnuðu Bitakot

Eiginmaður Rutar, Bragi V. Jónsson, hafði verið jarðvinnuverktaki fyrir hrun og átti síðan þá góðan og nýlegan kaffiskúr. Og einn daginn fæddist hugmyndin að stofna pylsusjoppu og nýta skúrinn sem síðan var klæddur og innréttaður í þeim tilgangi. Hann var síðan settur niður fyrir framan sundlaugina á Álftanesi þar sem þau hafa búið alla tíð. Þau vissu sem var að þar hafði ekki verið sjoppa hvað þá meira í allmörg ár. Hugmyndin var mjög snjöll og þau ráku sjoppuna í sjö ár með góðum árangri. Þau stækkuðu sjoppuna tvisvar svo pylsusjoppan varð að hamborgarastað sem hægt var að versla og borða inni í ef veður var vont. Rut segir að þessi tími hafi verið sérlega skemmtilegur, þau hafi eignast fullt af fastakúnnum sem urðu góðir vinir þeirra. Hún segir hlæjandi frá því að jafnvel þótt þessi vinna hafi verið skemmileg og gefandi hafi þau ákveðið að sjö ár væri nóg, sér í lagi af því að þá hafi hún verið farin í hnjánum og Bragi í mjöðminni.

Keyptu sumarbústað og leigja hann út

Rut segir að vinna hennar um þessar mundir sé að sjá um sumarbústað þeirra hjóna sem þau leigi út til ferðamanna. “Eftir að við seldum Bitakot fannst okkur ekki alveg tími til að leggja árar í bát en vildum huga að léttari vinnu. Þannig að við keyptum sumarbústað á Geysissvæðinu og nú er það vinnan mín að sjá um bústaðinn. Mér þykir ekki leiðinlegt að keyra á milli því ég get verið að hlusta á skemmtilega sögu eða tónlist á leiðinni austur. Svo nú er þetta nýja vinnan mín og mér þykir einnig mjög skemmtilegt að vera í samskiptum við erlenda ferðamenn sem eru einstaklega kurteisir og ganga vel um” segir þessi líflega og skemmtilega kona sem ekki þarf að koma á óvart að syngi í kór. Hún hefur sungið í Álftaneskórnum í öll 30 árin sem hún hefur búið í bæjarfélaginu. “Ég var í fríi fá kórnum í vetur en ég sakna þess að syngja og hlakka til að byrja aftur í haust,” og eflaust verður henni tekið fagnandi í þann félagsskap.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 17, 2018 07:58