Samfélagsverkefni að kenna börnum að lesa

 

Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir

Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir

Það er viðfangsefni alls samfélagsins að kenna börnunum okkar að lesa, segir Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.  Hún telur að afar og ömmur geti komið þar sterk inn, ásamt foreldrum, og einnig langafar og langömmur.

Samkvæmt PISA rannsókn, ná nærri tuttugu prósent íslenskra grunnskólanemenda ekki lágmarksviðmiðum í lestri og hafa drengir staðið stúlkum að baki í þessu efni.  Nú hefur verið hleypt af stokkunum verkefni, þar sem feðgar eru hvattir til að lesa saman.   Birna María segir að börn sjái feður sína lesa minna en mæður.  Svo virðist sem hefð sé  fyrir því að konur lesi bækur, en karlar fletti frekar blöðum og tímaritum.  Hún segir verkefnið líka viðleitni í þá átt að snúa þessu við og koma á þannig viðhorfsbreytingu að karlmenn á heimilum lesi bækur sér til ánægju.

Verkefninu, sem heitir Fágæti og furðuverk, er ætlað að efla lestraráhuga drengja í fjórða bekk og fá þeir lesefni sem tengist áhugamálum þeirra afhent í bakpoka. Auk lesefnisins eru þar leikföng eða hlutir sem tengjast lesefninu.  Þar er einnig að finna lesefni fyrir foreldra/feður, en markmiðið er að drengir og feður lesi saman.

Birna María segir að töluverð umræða hafi verið um það á síðustu árum að opna skólana fyrir eldri borgurum sem eru heima og fá þá til að lesa með börnunum og spjalla við þau.  Eitthvað sé um að það hafi verið gert, þó ekki hafi verið um formlegt verkefni að ræða.  Afar og ömmur séu oft á fullu í atvinnulífinu og þarna sé því kannski meira horft á langafa og langömmur.  En hún segir að það sé nauðsynlegt að virkja alla, því í víðum skilningi megi segja að það sé verkefni alls samfélagsins að kenna börnunum að lesa og þar geti afar og ömmur komið sterk inn.

Lestur barna og ungmenna hefur á síðustu misserum verið mikið til umræðu í samfélaginu og um næstu helgi verður haldin á Akureyri 300 manna ráðstefna um læsi.

 

Ritstjórn september 9, 2014 16:12