Samskiptanótur lífsins

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Mannleg samskipti hvort sem þau eru innan fjölskyldu, í vinahópi eða á vinnustað er mikilvægasti tengslaþáttur lífsins. Hæfileikinn til mannlegra samskipta skiptir miklu mál fyrir lífsfyllingu einstaklinga og hvernig þeim líður í daglegu lífi. Mannleg samskipti virðast flókin og reynast mörgum erfið. En góð mannleg samskipti eru grundvölluð á fáum þáttum. Ég hef gaman af því að hlusta á tónlist og nýt fjölbreyttrar tónlistar. Oft hugsa ég um þennan óendanlega fjölbreytileika tónlistarinnar sem í raun grundvallast á fáum grunnþáttum. Mannleg samskipti og tónlist eiga það sameiginlegt að grunnurinn er afar einfaldur. Tónlist er grundvölluð á 12 tónum en hægt er að setja þessa tóna saman í óendanlegum breytileika. Góð mannleg samskipti grundvallast á fáum þáttum sem er einnig grunnur óendanlegs breytileika.

Þessir 12 tónar eru í einni áttund. 12 tónarnir á nótnaborði endurtaka sig svo í mismunandi tónhæðum. Þótt grunnurinn sé svona fábreyttur er fjölbreytileiki tónlistarinnar óendanlegur. Úr 12 tónunum verður til sígild tónlist, dægurtónlist, þjóðlagatónlist, jazz og sálmar í óendanlegum fjölbreytileika. Fólk hefur mismikla hæfileika til þess að skapa tónlist, túlka hana og njóta og áhugasvið fólks eru fjölbreytt. Sumir semja tónverk með notkun fárra tóna meðan aðrir nota tónstigann til fullnustu. Sumir setja saman yndislega samhljóma sem hrífa fjöldann meðan aðrir semja verk sem vekja hrifningu fámennra hópa. Tónlistin er óaðskiljanlegur hluti daglegs lífs okkar. Við erum einnig misjafnlega móttækileg fyrir tónlist. Allir geta lært undirstöðu atriði tækninnar að semja og flytja tónlist en árangurinn verður mismunandi. Hann ræðst af hæfileikum og ekki síður menntun, þjálfun og ástundun.

Við getum leikið okkur með þessa hugsun og reynt að skilgreina grunnþætti í mannlegum samskiptum. Þessir samskiptaþættir eru hluti af persónuleika hvers og eins. Persónuleikar fólks mótast af því hvernig við framkvæmum dagleg verkefni okkar, viðhorfum til atburða og annarra einstaklinga og hegðun gagnvart öðrum. Í einni áttund á ásláttarhljóðfæri eru 12 tónar, hvítu nóturnar eru 7 og svörtu nóturnar eru 5. Allar nóturnar 12 hafa sitt heiti. Velta má fyrir sér hverjir grunnþættirnir eru í mannlegum samskiptum og velja 12 þætti til samræmis við tónlistina. Jafnvel má leika sér með hvítu og svörtu nóturnar og segja að hvítu nóturnar séu jákvæðir þættir og svörtu nóturnar séu neikvæðir þættir þótt ekki sé almennt í lífinu leikið eingöngu á annað hvort hvítar eða svartar nótur. Líklega leikum við öll samt pínulítið af svörtu nótunum í samskiptum okkur. Hér eru tillögur um 12 samskiptanótur lífsins:

Hvítar nótur -7 þættir:

  • Ábyrgðartilfinning
  • Fórnfýsi
  • Fyrirgefning
  • Heiðarleiki
  • Jákvæðni
  • Tillitsemi
  • Umburðarlyndi

Svartar nótur – 5 þættir:

  • Hroki
  • Illgirni
  • Neikvæðni
  • Óheiðarleiki
  • Öfund

Á langri skólagöngu og starfsæfi hef ég haft tækifæri til þess að starfa með miklum fjölda fólks bæði í leik og starfi. Ég hef unnið með fólki með mikla og góða menntun og einnig með lítið skólamenntuðu fólki. Ég hef tekið eftir því hve mörgu hæfileikaríku og menntuðu fólki og fólki almennt, nýtast verr hæfileikar og reynsla vegna þess hve mannleg samskipti eru þeim erfið. Ég hef einnig unnið með hæfileikaríku minna menntuðu fólki sem tekst að ná góðum árangri í starfi og félagsmálum vegna góðra hæfileika til mannlegra samskipta. Hæfileikinn til mannlegra samskipta ræðst ekki af menntun. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort skólakerfið ætti ekki að taka meiri þátt í að þroska mannleg samskipti nemenda. Þetta er hægt að gera með beinni kennslu og einnig með því að hvetja til félagsstarfs og jafnvel gefa einkunnir fyrir þátttöku í félagsstarfi. Mikilvæg mótunarár þroska eru á árunum fyrir og eftir 20 ára aldur á skólagöngualdri. Þátttaka í félagslífi mótar félagslegan þroska og hæfni til þess að vinna með öðrum. Ég hef velt því fyrir mér hvaða áhrif t.d. stytting menntaskólanáms sem nú er í umræðunni mun hafa á félagslíf. Sjálfur hef ég reynslu á þessu sviði. Í Menntaskólanum á Akureyri tók ég virkan þátt í félagslífi, etv. of mikinn. Félagsstarfið kom niður á einkunnum en ég er sannfærður um að þátttakan í félagslífinu skilaði mér ekki síður góðu veganesti út í lífið en bóklærdómurinn. Í félagsstarfinu lærði ég m.a. fyrstu skref í t.d. skipulagningu verkefna, hvernig koma á hugmyndum á framfæri og hvernig á að fá aðra til þátttöku og samvinnu. Við lærum að eigin hugmyndir eru ekki þær einu sem taka þarf tilliti til og málamiðlanir eru oft nauðsynlegar. Við lærum að taka tillit til skoðana annarra. Ég tók virkan þátt í félagsstarfi í Háskóla Íslands. Síðar fór ég til framhaldsnáms í háskóla í Bretlandi. Í þeim skóla var boðið upp á 12 mánaða meistaranám í stað hefðbundins tveggja ára náms. Þetta ár var eitt erfiðasta vinnuár í lífi mínu. Eiginkona og elsta dóttir okkar sáum mig vart í 12 mánuði. Í upphafi skólaársins var okkur nemendum tilkynnt að við værum 30 nemendur valdir úr 300 umsækjendum og ef við ættum einhverja auða stund næstu 12 mánuðina ættum við ekki erindi í námið og ættum að halda heim. Nokkrir nemendur gáfust upp á álaginu. Námið var erfitt og vinnudagar langir. Nokkrir nemendur mótmæltu álaginu við yfirstjórnendur skólans. Vinnuálag mitt sem hefur verið mikið alla starfsæfina hefur miðast við þetta erfiða ár og verið í samanburði í raun léttara en háskólanámið. Ég lærði bóklega mikið í náminu í Bretlandi en félagslíf hópsins þetta ár var ekkert. Vinatengsl mynduðust en félagstengsl voru í algjöru lágmarki.

Okkur eru gefnir ákveðnir eiginleikar til mannlegra samskipta og umhverfið í uppvexti mótar samskiptahæfileika okkar fyrir lífstíð. Skoðun mín er sú að hægt sé að bæta mannleg samskipti með menntun og þjálfun alla ævina. En grunninn að slíkri menntun og þjálfun í félagslegri færni á að leggja á skólaárum. Slík þjálfun er er ekki síður mikilvæg en kennsla í bóklegum fögum. Grunntónar mannlegra samskipta eru ekki margir frekar en grunntónar tónlistarinnar en við þurfum að þekkja þá, fá þjálfun i að móta þá og þroska og öðlast tilfinningu fyrir því hvernig hegðun annarra hefur áhrif á okkur sjálf. Ég hef nefnt þetta tilfinningabergmál. Þannig verður lífið mun ánægjulegra og árangursríkara og menntun okkur og reynsla nýtist betur sjálfum okkur og öðrum til farsældar.

Þráinn Þorvaldsson maí 26, 2015 13:55