Sefur þú nóg?

Samkvæmt því sem kemur fram á síðu Landlæknisembættisins þarf fullorðið fólk að sofa 7 til 8 klukkustundir á sólarhring. Eldra fólk þarf að sofa í sjö stundir og sumir í þeim hópi þurfa að bæta einni klukkustund við þann tíma og leggja sig einhvern tíma dagsins. Samkvæmt nýlegri könnun MMR um svefnvenjur Íslendinga sefur eitt prósent þeirra sem eru á aldrinum 50 til 67 ára 0-4 stundir á nóttu en fimm prósent þeirra sem eru 68 ára og eldri. Fjögur prósent í báðum hópum sögðust sofa í 5 klukkustundir. 26 prósent þeirra sem eru 50 til 67 ára sögðust sofa í sex stundir og 14 prósent þeirra sem eru 68 ára og eldri. Helmingur yngra hópsins sagðist sofa í sjö stundir og 45 prósent eldra hópsins. Í átta stundir á nóttu hverri sögðust 18 prósent 50 til 67 ára sofa og 27 prósent þeirra sem eru 68 ára og eldri. Eitt prósent yngra hópsins sagðist sofa í 9 klukkustundir og 5 prósent eldra hópsins. Enginn sagðist sofa í meira en 10 stundir. Hér er hægt að nálgast könnun MMR í heild.

Landlæknisembættið segir að vísbendingar um ónógan svefn séu ýmsar svo sem pirringur, skapsveiflur og hömluleysi. Langvarndi svefnskortur getur haft í för með sér að fólk verði sinnulaust og þvoglumælt, upplifi tilfinningalega deyfð, lélegra minni og einbeitingaskort. Aðrar vísbendingar um svefnskort eru:

  • Sofnar um leið og höfuð er lagt á kodda
  • Þarf að vakna við vekjaraklukku
  • Þarf að blunda á daginn
  • Erfitt að vakna á morgnana
  • Verri frammistaða í vinnu
  • Erfiðleikar með ákvarðanatöku
  • Sofnar í vinnu
Ritstjórn september 6, 2018 09:19