Tengdar greinar

Sigríður Ella Magnúsdóttir söngkona

Langamma hennar á Ströndum var svo raddsterk að hún gat kallað yfir heilan fjörð og var fyrir vikið kölluð Bjarnafjarðarbjallan. Sennilega hefur hún sjálf erft sína góðu rödd frá henni, en hún hefur verið söngkona og söngkennari í áratugi.  Þegar blaðamaður Lifðu núna hringdi í hana til að forvitnast um hvað þessi glæsilega söngkona væri að gera núna, var hún á gangi á götu í London. Það var því erfitt að spjalla, en við ákváðum að tala saman þegar hún kæmi heim í byrjun desember.

Margir muna eftir Sigríði Ellu þegar hún söng Carmen í Þjóðleikhúsinu fyrir margt löngu. „Sú sýning sló öll sýningarmet og það met stendur ennþá“, segir hún í samtali við blaðamann. Sigríður Ella átti svo eftir að syngja Carmen aftur í Íslensku óperunni tíu árum síðar. „Ég var alltaf með annan fótinn á Íslandi á þessum árum, áður en börnin mín byrjuðu í skóla en þau eru  þrjú og eru öll fædd hér“, segir hún.  Ég gaf út jólaplötu eitt árið ásamt manninum mínum Simon Vaughan og fleirum. Það varð til þess að við gátum fest kaup á gömlu húsi á Grímsstaðaholtinu, en það var mjög illa farið. Smám saman tókst okkur með aðstoð fjölskyldunnar að lagfæra það og þar búum við núna. „En ég var ekki eingöngu að syngja á Íslandi, ég söng í óperuhúsum og tónleikasölum í Bretlandi og út um allar trissur, ég hef fengið nóg af ferðalögum“, segir hún.

Það var ástin sem réði því að Sigríður Ella flutti til Bretlands þar sem hún bjó í meira en 30 ár. Maðurinn hennar Simon, er  söngvari, ljósmyndari og mikill tungumálamaður sem bæði þýðir og prófarkarles„ Við kynntumst í Tónlistarháskólanum í Vínarborg. Við vorum saman í tveimur bekkjum, leikhússminki og leikhúsdansi og vorum saman í tólf manna hópi sem flutti 20. aldar tónlist m. a. á Ítalíu. Ég man hvað mér fannst hann sætur þegar hann var búinn að sminka sig sem gamlan mann“, rifjar hún upp og brosir.  Þau giftust og eiga þrjú uppkomin börn, syni sem eru tvíburar og eina dóttur. Barnabörnin eru tvær litlar stúlkur. Annar sonurinn býr í New York en hinn í London, en dóttirin býr í Manchester í Bretlandi.

Árið  2012, ákváðu þau hjónin að flytja til Íslands í kjölfar hjartaaðgerðar sem Sigríður Ella þurfti að gangast undir. „ Það uppgötvaðist að ég var með fæðingargalla, streng sem óx inn í hjartanu og gat á milli hjartahólfa, það var stoppað í gatið og strengurinn var klipptur úr hjartanu. Eftir aðgerðina hugsaði ég um allt það sem mig langaði enn til þess að gera.“ Hún spurði Simon hvort þau ættu að flytja til Íslands. „Hann sagði strax já og ég varð alveg hissa, en hann var búinn að læra íslensku, talar málið og elskar að ferðast um landið okkar“. Sigríður Ella segir þau vera mitt á milli barnana sinna hér á Íslandi.  Þegar blaðamaður hringdi í hana til London, var hún einmitt að hitta syni sína og þeirra fjölskyldur. Sá sem býr í New York hafði sum sé brugðið sér þangað. Hún segir yndislegt að fá að hitta börnin og að ekki sé talað um barnabörnin. „Það er náttúrulega toppurinn á tilverunni“.

Sigríður Ella er ekki hætt að syngja, þó ekki standi hún lengur á sviði óperuhúsa.  En hún er menntaður söngkennari og kennir söng. „Ég kenni bara þeim sem mig langar að kenna“, segir hún og segist syngja fyrir barnabörnin og vini sína. Hún æfir alltaf og segir þau hjónin hafa verið svo lánsöm eftir að börnin voru farin að heiman, að vinna bæði fyrir Evrópsku kammeróperuna. „Við hjónin höfðum ekki oft tækifæri til þess að syngja saman, en Evrópsku kammeróperan réði fjóra söngvara til þess að syngja atriði úr óperum á skipi sem fer í menningarferðir um allan heim. Með í för ásamt söngvurunum, var leikstjóri og píanóleikari“. Þau hafa siglt til Möltu, Grikklands og Tyrklands, Krítar, Malasíu, Indlands, Thailands og loks til New Orleans og margra landa Suður Ameríku. „Þetta var ótrúlega gaman, við sungum bara tvö kvöld í viku og það var lúxuslíf að sofna að kvöldi og vakna á nýjum stað að morgni, en  um borð í skipinu voru fjórir flyglar og stórt bókasafn“.

Hvort Sigríður Ella er flutt heim til að vera, segist hún ekki vita neitt um. „Ég nýt þess að gera það sem mig langar til, það er stórkostlegt að geta ráðið sínum tíma. Með nýjustu tækni get ég fylgst með sonardóttur minni á leikskólanum í New York og hinni í Englandi og verið í góðu sambandi við börnin mín“.

Ritstjórn janúar 2, 2019 08:02