Silungur með spínati, kókos og sætri kartöflu

Það virðist eiga vel við bragðlauka blaðamanns Lifðu núna að borða fisk þessa dagana, eftir veislumatinn um hátíðarnar. Þessi fiskréttur er fenginn af vefnum GULUR RAUÐUR GRÆNN og salt og er ætlaður fyrir fjóra. Hann er sáraeinfaldur, sem skemmir ekki fyrir. Sjá þennan skemmtilega matarvef hér.

Silungur og sætar kartöflur eru ekki bara lík á litinn heldur er ást og samlyndi með þeim í matargerð á við bestu hjónabönd, segir á vefnum. Hér hvílir silungurinn á spínatbeði þegar kartaflan kemur og þekur hann, síðan sjá sósan og hitinn um að líma allt saman. Kókosmjólkin og karrímaukið gefa skemmtilega skæra og austræna tóna í þennan rétt. Þetta er hlægilega fljótlegur en jafnframt „stór“ og góður réttur sem stendur fyrir sínu sem aðalréttur við flestar kringumstæður. Og síðast en ekki síst auðvitað meinhollur líka!

Fyrir 4
Eldunartími 40 mínútur
7-800 g silungur
1 sæt kartafla, léttsoðin og skorin litla í teninga
1/2 poki ferskt spínat
1/2 dós kókosmjólk, t.d. frá Blue dragon
1 tsk rautt karrímauk, t.d. red curry paste frá Blue dragon
1 msk fiskisósa, t.d. fish sauce frá Blue dragon
safi af 1/2 límónu
1 msk agave sýróp
salt og pipar

  1. Smyrjið ofnfast mót með með olíu. Látið spínat í botninn á mótinu og silunginn ofan á það. Dreifið sætu kartöflunni yfir allt og saltið og piprið.
  2. Blandið saman kókosmjólk, karrímauki, fiskisósu, límónusafa og agave sýrópi og hellið yfir réttinn. Eldið við 200°C  í 30 mínútur.
Ritstjórn janúar 3, 2020 16:46