Tengdar greinar

Síminn kennir á snjallsíma

 Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar

Sjö símaeigendur sitja í litlu herbergi inn af verslun Símans í Ármúla og bíða eftir að námskeiðið hefjist. Þetta eru fimm konur og tveir karlar og þau ætla að læra á símann sinn. Kennararnir heita Rúnar og Jens og þeir kenna vikulega á snjallsíma með Android-stýrikerfi hjá Símanum. Kennararnir setja fljótlega í gang. Nemendurnir eru allir með símana uppi við og prufa sig áfram eftir því sem námskeiðinu vindur fram. Fljótlega fara spurningar að dynja á kennurunum og annar þeirra fer fram öðru hvoru til að skýra málin í ró og næði.

Margnota tæki

Á námskeiðinu kemur fram að snjallsíminn er ekki bara sími heldur margnota tæki. Rúnar kennari notar símann sinn við fyrirlesturinn, til dæmis til að varpa mynd á skjáinn. Síminn er allt í senn, sími, tölva, myndavél, GPS-tæki og margt annað. Hægt er að komast á netið, bæði í gegnum símann sjálfan og svo eru mismunandi tengingar í boði, bæði 3G og eða 4G og sömuleiðis WiFi, og þessa möguleika skiptir máli að símeigandur þekki. Vilji símaeigendur bara vita staðsetninguna eða nota símann sem GPS-tæki erlendis þá er í símanum lítill GPS-tölvukubbur sem nær sambandi við gervihnött til staðsetningar. GPS er alltaf frítt. Það er því ágæt regla að hafa slökkt á 3G eða 4G-tengingum og þá ekki síst þegar ferðast er erlendis og kveikja bara á því þegar á að nota það. Sama gildir um WiFi, það er ágætt að kveikja bara á því þegar á að nota það.

Í snjallsímunum er líka myndavél, tónlistarspilari, leikjatölva og svo er hægt að lesa e-bækur í gegnum símann, hlusta á hljóðbækur og sækja allskyns forrit, svokölluð öpp, í nokkurs konar búð (í símanum) sem kölluð er PlayStore. Allir nýir símar eru með stóran harðan disk og flest forritin í PlayStore eru ókeypis. Þá eru komin mörg íslensk forrit, svokölluð öpp, fyrir snjallsíma, til dæmis bankar, Strætó, Domino‘s, Íslendingabók. Kennararnir segja að mikill meirihluti af öppunum sé laus við vírusa og þá sérstaklega 300 algengustu öppin. Þeir hafa aldrei séð vírus í farsíma en hinsvegar hafa þeir séð svokallað „spyware“, auglýsingu sem kemur reglulega upp og lítið mál er að fjarlægja.

Gmail gott fyrir tengiliði

Á námskeiðinu koma fram ýmsar upplýsingar sem of langt mál yrði að telja upp hér. Til umræðu kom sú staðreynd að gmail er algengasta tölvupóstforrit í heimi. Kennararnir segja gott að vera skráður á gmail og hafa svoleiðis netfang því það virkar sem aðgangur inn á PlayStore. Google á gmail-tölvupóstinn og Android stýrikerfið. Kennararnir mæla með því að vista tengiliði á gmail og kalla þá svo fram í símanum því þannig sé mjög öruggt og lítið mál að flytja upplýsingar um tengiliði á milli síma.

Þeir segja líka að það borgi sig að uppfæra símann strax og hann gefur eigandanum kost á því.

 Sparar batterí

Í snjallsímum eru ýmis tæki. BlueTooth er aðallega notað sem handfrjáls búnaður en BlueTooth er líka hægt að nota til að senda myndir úr einum síma í annan. BlueTooth eyðir miklu batteríi. Gott getur verið að spara batteríið. Þannig notar GPS-ið talsvert batterí og því getur verið ágætt að hafa slökkt á því nema þegar nota á staðsetningartækið. Í nýjum símum getur verið eitthvað sem heitir NFC. Þar er á ferðinni ný tækni þar sem síminn er paraður við heyrnartól, hátalara eða annan síma sem hefur þá NFC búnað á móti.

Þá eru vinsælir ýmsir aukahlutir eins og bílhleðslutæki, handfrjáls búnaður, hlíf fyrir símann, minniskort, skjáfilmur til að draga úr rispum á skjá og fleira mætti nefna.

 

Draga niður „gardínu“

Kennararnir sýna og segja frá öllum þessu skemmtilegu forritum og aukahlutum og gefa góð ráð við notkun eftir því sem spurningarnar dynja á þeim. Þannig má til dæmis nefna heimaskjáinn sem er efst á skjánum. Hægt er að draga niður svokallaða „gardínu“ með því að halda puttanum niðri í smástund og draga. Þá má sjá flýtivísa í allar stillingar. Þeir sýna til dæmis hvar bannlisti er og hvernig hægt er að stilla hann þannig að lokað sé til dæmis fyrir tilkynningar í símann en annars myndi þeim rigna inn í símann og síminn pípa stanslaust á eigandann jafnt daga sem nætur.

Á námskeiðinu kemur líka fram að allir snjallsímar séu líka orðnir 3G lyklar. Með símanum sínum, eða öllu heldur 3G lyklinum í honum, er hægt að vinna á fartölvunni sinni á netinu hvar sem er en þá er að sjálfsögðu unnið í gegnum símann.

Á námskeiðinu myndast skemmtileg hópstemmning, þátttakendur leggja sitt af mörkum með spurningum og vangaveltum, þeir eru líka duglegir að leiðbeina hver öðrum um símann, sýna og hjálpa. Úr námskeiðinu fæst því miklu dýpri skilningur á símanum og möguleikum hans auk þess sem þjónustan er persónuleg og skemmtileg. Mikið spurt og líka margt útskýrt á ekki lengri tíma en klukkutíma.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 7, 2014 09:56