Sjóðfélagar kjósi sjálfir stjórnarmenn

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson skrifar

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna eigi að kjósa stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum. Í dag er það svo, að aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og SA, skipa stjórnir lífeyrissjóðanna. Sjóðfélagar, sem hafa greitt í lífeyrissjóðina alla sína starfsævi eru m.ö.o. algerlega valdalausir við rekstur og stjórn lífeyrissjóðanna. Það er að sjálfsögðu fráleitt fyrirkomulag. Þessu verður að breyta og það sem fyrst.

Pétur heitinn Blöndal fyrrverandi alþingismaður flutti tillögu um það á Alþingi, að sjóðfélagar í lífeyrissjóðunum kysu sjálfir stjórnarmenn lífeyrissjóðanna. Og nú hefur það gerst, að Óli Björn Kárason alþingismaður hefur lagt fram á Alþingi svipaða tillögu og Pétur Blöndal gerði. Hann vill, að sjóðfélagar kjósi stjórnarmenn beint í lífeyrissjóðunum. Ég er sammála þessari tillögu Óla Björns.

En fulltrúar Samtaka atvinnulífsins eru ekki ánægðir með tillögu Óla Björns. Framkvæmdastjóri samtakanna og aðstoðarframkvæmdastjóri skrifa grein í Morgunblaðið 11. mars 2017 og reka í greininni harðan áróður gegn því, að fyrirkomulagi á stjórnarkjöri lífeyrissjóðanna verði breytt. Aðalrök þeirra gegn breytingunni eru þau, að það hafi verið ákveðið í kjarasamningum að hafa þennan hátt á við stjórnarkjör. Pétur heitinn Blöndal sagði um það atriði, að þegar Alþingi setti lög um lífeyrissjóðina hefði þetta breyst. Uppbygging lífeyrissjóðanna væri eftir það mál Alþingis. Og stjórnarkjör lífeyrissjóðanna væri einfaldlega mál sem Alþingi gæti ákveðið með lagasetningu. Ég er sammála því

Ég skil það vel, að aðilar vinnumarkaðarins vilji halda völdum í lífeyrissjóðunum og fá að skipa áfram fulltrúa í stjórnir þeirra. En þetta er ekki lýðræðislegt fyrirkomulag. Og það er ekki eðlilegt, að launþegar, sjóðfélagar, sem hafa byggt upp lífeyrissjóðina og eiga lífeyrinn þar, skuli vera áhrifalausir um stjórn og rekstur sjóðanna. Þessu verður að breyta sem allra fyrst. Sjóðfélagar eiga að fá full yfirráð yfir lífeyrissjóðunum.

Það er veruleg óánægja meðal sjóðfélaga vegna mikillar skerðingar Tryggingastofnunar og ríkisins á lífeyri þeirra hjá almannatryggingum. Þegar slík óánægja er í gangi mundi það styrkja lífeyrissjóðina, ef sjóðfélagar færu sjálfir með stjórn þeirra. Það er því orðin brýn nauðsyn af mörgum ástæðum að breyta fyrirkomulagi á stjórnarkjöri lífeyrissjóðanna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5.apríl 2017

Ritstjórn apríl 5, 2017 11:04