Sjötíu ára reglan afnumin hjá ríkinu

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra segir að í undirbúningi sé frumvarp sem verði lagt fram á haustþingi sem afnemi 70 ára regluna hjá ríkinu. Verði frumvarpið að lögum fá þeir sem vinna hjá ríkinu að vinna framyfir sjötugt kjósi þeir það á annað borð. „Þetta eykur sveigjanleika,“ segðir Þorsteinn en hann er gestur í þættinum 50 plús á Hringbraut í kvöld.

Þorsteinn segir að það sé full ástæða til að skoða atvinnumál þeirra sem komnir eru á miðjan aldur í ljósi þess að margir á þeim aldri hafi lýst mikilli þrautagöngu við að fá nýtt starf missi þeir vinnuna á annað borð. „Það er full ástæða til að rannsaka þetta vel . Er þetta mýta eða er þetta veruleikinn sem blasir við,“ segir Þorsteinn. Hann segir að viðhorf atvinnulífsins í garð þessa hóps séu að breytast mjög mikið. „Reynsla þessa hóps er gríðarlega vanmetin. Það þarf að spyrna gegn fordómum sem snúa að þessum hópi.“

Margt fleira fleira bar á góma í þættinum svo sem samskipti aldraðra og ríksins. Þorsteinn sagði meðal annars að við endurskoðun almannatryggingalaganna hefði verið haft samráð við samök eldri borgara. En eflaust mætti bæta þessi samskipti.  Þorsteinn sagði að stjórnvöld hefðu gert það sem þau geta til að bæta afkomu aldraðra og öryrkja. Alþingi hefði til að mynda samþykkt að tryggja þessum hópum lágmarksframfærslu upp á 300 þúsund krónur.  Um frítekjumarkið sagði Þorsteinn  að ríkinu væri þröngur stakkur skorinn við að afnema það í einni svipan en sagði að það ætti að hækka það upp í 100 þúsund krónur í áföngum á kjörtímabilinu.

Þátturinn 50 plús er sýndur á Hringbraut á mánudagskvöldum klukkan 20.30 og aftur klukkan 22.30.  Hann er endursýndur á þriðjudögum og um helgar. Hér er linkur á þáttinn í heild.

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 10, 2017 11:18