Skattheimta eins og hér sést ekki í nágrannalöndunum

Haukur Arnþórsson

Samband stjórnendafélaga hefur birt á vef sínum  grein um skerðingar ellilífeyris, eftir Hauk Arnþórsson stjórnsýslufræðing. Sambandið fékk hann til að rannsaka þetta efni og skrifa um það grein.

Skerðingar í almannatryggingakerfinu eru ekki nýjar á nálinni. Það kemur fram í greininni að þær hófust 1974 og stóðu til 1993. Á árunum 1960-1974 voru að vísu engar skerðingar og heldur ekki á árunum 1993 – 1998. Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks setti á skerðingar af öllum tekjum árið 1998 og hafa þær verið við lýði síðan.  Árið 2016 kom Eygló Harðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra á núverandi keri. Skerðingarhlutfallið er 45% og frítekjumark 25 þúsund krónur.  Haukur rekur tilkomu lífeyrissjóðanna í greininni og greiðslur Tryggingastofnunar og fjallar líka um hvort þeir sem njóta ellilífeyris eigi kröfur á ríkið vegna skerðinganna. Síðan segir orðrétt í greininni. Undir millifyrirsögninni Réttmætar kröfur.

Þegar rætt er um breytingar á skerðingum beinist athyglin fljótlega að fimm atriðum: a) frítekjumarkinu, b) skerðingahlutfallinu, c) grunnellilífeyri, d) mögulegri tvísköttun og e) uppbyggingu kerfisins í heild.

Frítekjumarkið er í sögulegu samhengi mjög lágt. Það var um 109 þús. kr. fyrir breytinguna 1. janúar 2017 og hefur ekki komið fram réttmæt skýring á lækkuninni sem þá varð. Hér vegur það sjónarmið þungt að aldraðir hafa sjálfir sparað fyrir lífeyrissjóðsgreiðslunum, þær eru ekki launagreiðslur sem koma frá vinnuveitendunum að starfsaldri loknum. Því er eðlilegt að almenningur njóti sparnaðar síns. Frítekjumörk eins og voru á upphafsárum lífeyrissjóða, 1956-1960 eða um 150 þús. kr. kæmu vel til greina.

Skerðingahlutfallið er hátt í sögulegu samhengi, það mætti gjarnan vera 25-30%. Þá verður að taka tillit til þess hvað það grípur inn í á lágum tekjum. Það er líka spurning af hvaða upphæð skerðingin er tekin. Hún hefur ekki alltaf náð til alls ellilífeyrisins, honum hefur á tímabilum verið skipt upp í fleiri þætti.

Hér er vísað til grunnlífeyrisins sem allir nutu á ákveðnu tímabili og var um 40 þús. kr. fyrir breytinguna 1. janúar 2017, en þá var hann tekinn af. Krafa hins almenna launamanns um ellilífeyri eins og hann var þegar lífeyriskerfinu var komið á er um nálægt 120 þús. kr. grunnellilífeyri eins og þegar hefur komið fram.

Líta má svo á að ríkið tvískatti lífeyristekjur annars vegar hjá Ríkisskattstjóra og hins vegar hjá Tryggingastofnun, raunar allar tekjur aldraðra. Þá er átt við að aldraðir greiða af þeim skatt í almenna skattkerfinu og síðan annan skatt í formi skerðinga. Heildarskattar og skerðingar fara upp í 81,9% sem þýðir að A sem hefur 100 þús. kr. hærri lífeyrissjóðstekjur en B, hefur á ákveðnu tekjubili 18.100 kr. meira í ráðstöfunartekjur en hann á mánuði. Skattheimta af þessu tagi sést ekki lengur í nágrannaríkjunum og hefur raunar aldrei sést. Það styður sjónarmið um tvísköttun að sömu skattstofnar eru tvínýttir, tekjuupplýsinga er aflað á tveimur stöðum, staðgreiðsla og ársuppgjör (álagning og endurreikningur greiðslna) eru gerð á tveimur stöðum og útdeiling inneignar og skuldar á nokkra komandi mánuði er gerð á tveimur stöðum.

Að lokum segir Haukur.

Í heild er kerfið erfitt fyrir aldraða. Segja má að það tvöfalda kerfi Ríkisskattstjóra og Tryggingastofnunar með öllum sínum skattskilum og álagningum, hvort sem um tvísköttun er að ræða eða ekki, mæti ekki meðalhófsreglu í framgöngu hins opinbera gagnvart öldruðum. Allar nauðsynlegar upplýsingar berast Ríkisskattstjóra mánaðarlega þannig að ríkisvaldið hefur þessar upplýsingar þá þegar við höndina og upplýsingaöflun Tryggingastofnunar er óþörf. Í ljósi þess að aldraðir geta haft skerta getu til samskipta við hið opinbera og til að annast fjármál sín, verður þessi upplýsingaöflun að teljast algerlega óviðunandi – og framganga ríkisins ekki samkvæmt meðalhófi. Þegar litið er á stóru myndina blasir við að tvíverknaður er í kerfinu, sem styður að brotin sé réttmætisregla eða sú regla að opinberar ákvarðanir byggi á málefnalegum, forsvaranlegum sjónarmiðum.

Líka má nefna hitt að í þessum kerfum endurspeglast átök samfélagsins um skattheimtu og samneyslu. Annars vegar það norræna sjónarmið að skattar af lágum launum eigi að vera lágir og háir af háum launum (sem myndi taka hluta af ellilífeyri frá tekjuhæsta hluta aldraðra aftur í ríkissjóð) og samneysla sé meginregla þannig að allir fái jafnt – auk hliðarráðstafana fyrir þá sem þurfa sérstakan stuðning. Hins vegar það sjónarmið að skattkerfið sé flatt og er þá átt við að skatthlutfall sé jafnvel það sama fyrir alla, hátekjufólk greiði fyrir opinbera þjónustu, þar með talda heilbrigðisþjónustu, og samneyslan taki aðeins til fátækrahjálpar.

Aldraðir eru líklegir til þess að vilja að jöfnunarhlutverki ríkisins sé sinnt í skattkerfinu og norrænum sjónarmiðum um samneyslu sé mætt, það er grundvöllur þess að allir njóti einhvers ellilífeyris frá almannatryggingum, en þeir vilja ekki að jöfnuðurinn sé í félagsmálapökkunum.

Greinina á vef  Sambands stjórnendafélaga má sjá í heild sinni með því að smella hér.

Ritstjórn desember 18, 2018 09:47