Skepnan byltir sér

 

Auður Haralds

Auður Haralds

Auður Haralds rithöfundur skrifar

Einu sinni var Tortryggnin þunglamaleg skepna sem svaf í djúpinu og bærði ekki á sér nema að ólgandi óveður rótuðu upp úthafi sakleysisins. Nú er sakleysið aðeins pollur, já, eiginlega bara bleyta á gólfinu og Tortryggninni kemur vart dúr á auga. Hún þrammar um heima hjá manni og fnæsir þegar fréttirnar koma. Mest ólmast skepnan þegar minnst er á að ekki megi hækka launin. Það gerir drengurinn í landsföðurlegu jakkafötunum og gefur upp ástæðuna: Stöðugleikinn, þessi sem hann sjálfur og persónulega, uppá eigið eindæmi, kom á; sá stöðugleiki getur farið fyrir lítið. Þá étur verðbólgan búbótina. Þegar raðverkföllin voru gengin yfir og allir höfðu fengið eitthvað, þó svo það væri ægilega hættulegt, þá hafði Tortryggnin haft allt á hornum sér. Helzt og sérstaklega gluggatjöldin, sem skepnan tætti í hengla og eru því nú rimlagluggatjöld. Þótt aðeins séu eftir slitrur af búslóðinni, þá er dýrið ekki hætt.Tortryggnin taldi sig skynja, að eftir að launahækkanir höfðu ýtt þjóðarbúinu út á yztu brún, þá yrði spyrnt við fótum á blábrúninni. Til dæmis einum fæti í íþróttaskó og öðrum í lakkskó. Tortryggnin telur, að á síðasta þingdegi fyrir jól verði ákveðið að áætluð hækkun bóta í janúar steypi okkur í hyldýpi verðbólgunnar. Verður því samþykkt að dreifa hækkuninni á næstu sjötíu árin, en fyrsti áfangi komi þó til framkvæmda í janúar 2016 og verði 0.01743%.

Það versta við að búa með Tortryggninni er ekki stöðugt rápið, tuðið og hornaskakið, heldur að hún hefur svo niðurdrepandi oft rétt fyrir sér. Hún álítur að það væri varhugavert að eyða hækkuninni fyrirfram í jólahald, sem bótaþegar voru hvort eð er búnir að venja sig af. Þess í stað skyldi styðja við sinn eigin stöðugleika með því að spara bara eins og venjulega.

Nokkurri gagnrýni sætti, að sparnaðarráðin sem gefin voru síðast, hefði þurft að taka í notkun eigi síðar en fyrir fjörutíu árum. Það mál þarf fólk að taka upp við foreldra sína, sem tilheyrðu fyrstu eyða-spreða-glutra kynslóðinni. Því miður verður að segja eins og er; afkomendum óráðsíðunnar reynist oft erfitt að læra sparnað. Að hluta er það vegna þess að fólk var vant að geta veitt sér allar nauðsynjar. Það virðist taka suma mörg ár eða áratugi að ná því að það er ekki lengur hægt. Sumir ná því aldrei. Annar hluti, sennilega meirihluti vandans, er að ekki er farin rétt leið að viðfangsefninu. Líklega er það sísuðið um niðurskurð i fjölmiðlum sem þvælist fyrir fólki. Hér þarf U-beygju.

Þegar spara skal, á ekki að leggjast yfir útgjöldin til að finna einhver atriði sem mögulega væri hægt að komast af án. Árangur þess er t.d. að einni tímaritsáskrift af fjórum er sagt upp og hætt að kaupa blóm í hverru viku, bara aðra hvora viku. Að því ákveðnu er upplagt að engjast yfir missinum og mótlætinu. En viti menn, fjárhagslega finnst enginn munur.

Auglýsing AuðurTakið stóra U-beygju og læðist aftan að eyðslunni. Hvað þurfið þið? Fæði, klæði, skæði, húsnæði. Annað eru ekki þarfir, heldur langanir. Skerið allt burtu nema fatnað, skó, mat, rafmagn, hita og snúrusíma. Þessu skal síðan stillt í það hóf, að það rúmist innan efnahagslögsögu ykkar. Fúlt? Það venst.

Eitt sinn bað koma mig um skyndihjálp í sparnaði, þar eð gjaldþrotið var farið að veifa henni af bílastæðinu. Á meðan við töluðum saman, reif hún upp varalit á 10-15 mínútna fresti og renndi yfir varirnar. „Hvað eyðirðu í varalit á mánuði?“ spurði ég. „Voða lítið, hann kostar ekki neitt,“ svaraði hún snöggt og fór aukayfirferð til áherzlu. „Ég fæ varaþurrk ef ég er ekki með varalit,“ bætti hún svo við.

Já er það. Ég reiknaði. Hún málaði um 15 fermetra með varalit á mánuði og hver fermetri leggur sig á 4 þúsund krónur. Dýrari en gólfefni. Sex mánuðum síðar var hún gjaldþrota.

Gamalt húsráð við varaþurrki: Eyrnamergur. Náttúrulega vernd líkamans. Bezt er að nota sinn eigin. Ekki verður séð að húsráðið standi fólki eitthvað fyrir þrifum, það er tiltölulega ólíklegt að eldri borgarar sem bregða sér í bæinn lendi skyndilega í lostafullum kossaofsa upp við næsta vegg með ókunnugum. Vildi samt svo til, þá má hæglega segja: Bíddu rétt á meðan ég nudda eyrnamerginn af vörunum….

 

Auður Haralds nóvember 16, 2015 11:21