Skrælinginn á kirkjubekknum

 

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

 

Í vor fermdist eitt barnabarna minna. Af því tilefni fór ég ásamt eiginmanni mínum til kirkju. Eftir að hafa fundið stæði fyrir bílinn fórum við inn. Töluverður slæðingur af fólki var sestur hér og þar um  kirkjuna, sem óðum var að fyllast af aðstandendum fermingarbarna. Aðeins fyrir framan miðju var hins vegar auður bekkur – utan þess að yst á honum sat kona, stutthærð, alvarleg og nokkuð við aldur.

„Þarna er fullt af sætum. Eigum við ekki bara að setjast þar, dálítið fyrir innan þessa konu,“ sagði ég við manninn minn. Hann kinkaði kolli og við þokuðum okkur að umræddum kirkjubekk.

Stutthærða konan gerði sig ekki líklega til að standa upp og leyfa okkur að komast í eitthvert þeirra um það bil tuttugu sæta sem voru fyrir innan hana.

„Fyrirgefðu, megum við komast inn fyrir þig?“ sagði ég.

„Nei, þessi sæti er öll upptekin,“ svaraði sú stutthærða stuttaralega.

„Ég sé ekki neinn,“ svaraði ég.

„Fjölskyldan á eftir að koma,“ svaraði konan ákveðin og sat sem fastast.

„Viltu ekki bara taka alla kirkjuna?“ sagði ég. Farið var að þykkna í mér þótt ósæmilegt sé kannski, miðað við hátíðlegt tilefni þessarar kirkjuheimsóknar.

Maðurinn minn gaf mér lauslegt olnbogaskot og hvíslaði hljóðleg að við við skyldum bara finna okkur önnur sæti. Það reyndist ekki auðvelt. Loks fengum við þó sæti á lausum stólum aftast í kirkjunni.

Þaðan fylgdist ég grannt með hvernig stutthærðu konunni gekk að halda í öll sætin á kirkjubekknum fyrir hina síðbúnu fjölskyldu sína. Það var augljóslega erfitt markmið. Ég sá að hún litaðist um öðru hvoru og var greinilega orðin næsta örvæntingarfull þegar hennar fólk tók loks að drífa að rétt áður en athöfnin hófst. Æði margir voru þá búnir að líta öll hin auðu sæti kirkjubekksins hýru auga. En „grá fyrir járnum“ sat sú stutthærða og það lýsti ekki beint af henni kristilegum kærleika þegar einhver vogaði sér að reyna að komast inn í öll hin útvöldu sæti sem hún varðveitti fyrir fjölskyldu sína.

„Þetta er nú meiri kerlingin,“ hvíslaði ég að manninum mínum. Í huga mér togaðist á hneykslun á hinu harðvítuga framferði konunnar og viss aðdáun á seiglu hennar að halda sætunum þrátt fyrir að margir hefðu freistað þess að komast í þau. Til að halda þessum kirkjubekk fyrir sig og sína hafði hún hvað eftir annað orðið að setja upp svip sem helst minnti á illvígan bolabít í harkalegri vörn fyrir heimili sitt.

Loks var fjölskylda hennar komin í sætin og kenndi þar „margra grasa“, allt frá börnum, aðsópsmiklum ungum konum með ljóst og strípulitað hár og til gamalla og grárra karla. Sú stutthærða gat andað léttar.

„Hún hefur beinlínis verið send til að taka frá sæti fyrir alla stórfjölskylduna,“ hvíslaði ég.

„Uss, fermingin er að byrja,“ svaraði maðurinn minn í lágum hljóðum.

„Það hefði mátt halda að „heiður fjölskyldunnar“ væri í veði,“ gat ég ekki stillt mig um að tauta.

Aðvarandi augnaráð eiginmannsins fékk mig til að „gá að guði og embætti mínu“ – eins og einn ágætur þingmaður nítjándu aldar orðaði það þegar honum blöskraði málflutningur samþingmanns síns.

Eftir þetta hef ég oft hugsaði til „skrælingjans á kirkjubekknum“, eins og ég hef stundum kallað stutthærðu konuna í huganum. Skrælingi er stórt orð í íslensku. Atferli hennar bar hins vegar að mínu mati vitni um ýmsa leiðinlega þætti sem einkennir Íslendinga – til dæmis í umferðinni, í röðinni við kassana í Bónus og svo mætti lengi telja. Er í lagi að senda eina konu til að taka frá heilan kirkjubekk við fermingu? Er í lagi að takast á hendur slíkt hlutverk? Myndi svona lagað líðast í kirkjum nágrannalandanna? Það væri fróðlegt að vita.

Þarna í kirkjunni var umrædd kona viðstödd þá vígslu barna inn í heim hinna fullorðnu sem fermingin hefur svo gjarnan verið kennd við. Gaf hún með þessu framferði fermingarbarninu sínu heppilegt veganesti inn í framtíðina?

Þetta atvik hefur orðið mér umhugsunarefni – Hvað mörg sæti getum við „tekið frá“ fyrir okkur og fjölskyldu okkar í samfélaginu? Þarf ekki að vera þar skynsamlegt hóf á eigi samfélagið að standa undir nafni sem slíkt? Getum við tekið frá eitt sæti, fjögur með því að leggja kápu og veski í þau – heilan kirkjubekk – eða bara „alla kirkjuna“? Er ekki hlutverk okkar, sem eldri eru, að kenna þeim yngri einhver eðlileg mörk í framkomu við náunga sinn – og virða þau sjálf?

 

Guðrún Guðlaugsdóttir júní 19, 2017 13:24