Skreppitúr til Indlands

Hlín Agnarsdóttir

Hlín Agnarsdóttir

Hlín Agnarsdóttir sjálfstætt starfandi listamaður skrifar

Á síðustu öld var ég stödd í húsi í Þingholtunum í Reykjavík þar sem Sverrir heitinn Hólmarsson var gestkomandi ásamt eiginkonu sinni, danska þýðandanum Mette Fanö. Sverrir kenndi mér ensku í menntaskóla og var alltaf í sérlegu uppáhaldi. Hann vildi vita hvað væri á döfinni hjá mér og stolt tilkynnti ég honum að ég ætlaði ,,að skreppa“ til London, bregða mér í leikhús, hitta vini og já fara kannski á einn indverskan en ég hafði fallið fyrir indverskum mat þegar ég dvaldi í London við leikstjórnarnám.

Þegar Mette Fanö heyrði að ég ætlaði rétt sem snöggvast að skreppa til London brást hún við af hneykslun og kaldhæðni. Hún hristi höfuðið og ranghvolfdi í sér augunum yfir þessum Íslendingum sem væru alltaf að skreppa hingað og þangað um heiminn eins og það væri ekkert tiltökumál að skutla sér um borð í flugvél og fara í skreppitúr til útlanda. Ég held þó að það sem aðallega hafi farið fyrir brjóstið á málamanneskjunni Mette hafi verið sögnin ,,að skreppa.“ Líklega fannst henni það ekki alveg rétta orðið í þessu samhengi, enda eru skreppitúrar frekar stuttir að lengd. Maður skreppur á klóið, út í næstu búð eða í mesta lagi suður í Hafnarfjörð

Skreppitúrar yfir Atlantshafið eru öllu lengri, hvað þá skreppitúrar til Indlands. Þangað skreppur maður nú varla nema að hafa tíma til þess, því annars er hætt við að tíminn skreppi saman og verði að engu. En ég gerði það nú samt ég ,,skrapp“ til Indlands fyrir síðustu jól og var þar í heilan mánuð sem er einmitt hæfilega langur tími til að átta sig á að það er ekki hægt að skreppa til Indlands nema missa af Indlandi. Missti þó ekki vitið á þessum mánuði eins og ætla mætti af öllum lýsingunum á hryllingnum sem þar á að viðgangast. En missti aftur á móti af hófseminni í jólahaldinu hér heima og púðurmenguninni á gamlárskvöld.

Auðvitað hélt ég mín jól og fagnaði nýju ári, tók upp einn pakka frá ferðafélaganum á menningarsetri í Delhi, prúðbúin upp á indverska vísu og varð vör við einn flugeld eða tvo um áramótin í Ahmedabad í Gujaratfylki, þar sem ég dansaði í húsi Sarabhai fjölskyldunnar. Og gott ef ég dansaði ekki út jólin á slóðum Jóns Indíafara í Pondicherry í Tamil Nadufylki með nokkrum Dönum, þó ekki úr flota Danakonungs. Fagnaði svo kærkominni sól rétt norðan við miðbaug í Keralafylki umlukin pálmaskógum. Vaknaði við bænaköll múslima og klukknahringingar hindúa og áttaði mig smátt og smátt á því að ég væri stödd í landi marbreytileikans.

Ferðin til Indlands var enginn venjulegur skreppitúr í skilningi Mette hinnar dönsku, ekki stutt skipulögð hópferð eða hjónaferð, hvað þá húsmæðraorlof eða ,,sumarfrí.“ Hún var ekki heldur týpísk menningarferð þar sem þrammað var um söfn og fornminjar með landsfrægum goðsögnum í ferðaleiðsögn á borð við Sigurð A. og Óla Gísla. Nei, ferðin til Indlands var leiðangur um land sem ég ætlaði aldrei fyrir mitt litla líf að heimsækja. Eins og mörgum öðrum, stóð mér fyrirfram stuggur af þessu stóra landi, lét sögusagnir og fréttir af mannmergð, glundroða, fátækt og aldalangri stéttaskiptingu næra fordóma mína. Svo ekki sé minnst á ofbeldið gegn konum. Nei, til Indlands skyldi ég aldrei fara! Ekki einu sinni skreppa.

En ég skrapp samt Indlands, þótt ég hafi verið vöruð við ýmsu sem getur valdið því að fólk skreppi saman eins og matareitrun, óstöðvandi niðurgangur,berklar og holdsveiki. En ég skrapp ekki saman þrátt fyrir mengað vatn, almennan óþrifnað og skítafýlu sem á víst að vera svo megn að þegar flogið er yfir Indland nær hún alla leið inn í flugstjórnarklefa og farþegarými á risaþotum að sögn sérfróðra! Ekki að spyrja að húmornum í háloftunum!

Ótti okkar við Indland stafar mestmegnis af fáfræði og úreltum hugmyndum um ástand mála, reglulegum æsifréttum og upphrópunum þar sem sjaldan er farið ofan í kjölinn á málum og hlutir ekki settir í efnahagslegt og pólitískt samhengi. Hluti óttans er auðvitað samviskubitið sem við flest erum þjökuð af, samviskubitið yfir ríkidæminu sem við búum við, ríkidæmi sem er tilkomið vegna misskiptingar lífsins gæða. Maður fær ekki menningarsjokk af því að koma til Indlands og verða vitni að fátækt og volæði, betli og munaðarleysi. Menningarsjokkið fær maður þegar heim er komið, í allsnægtirnar og lúxusvandamálin.

Indland er ekki eitt land, það er undirálfa sem samanstendur af mörgum ríkjum, tungumálum, trúarbrögðum og margskonar menningu og menntun. Það er sambland af ævafornu menningarsamfélagi og leifum af gamalli breskri nýlendu, þjóðfélag í stöðugri umbreytingu þar sem vestræn menning og gildi ryðja sér til rúms á ægihraða. Það er alveg útilokað að kynnast landinu í einum skreppitúr, jafnvel þótt hann sé í lengra lagi.

Indland er nefnilega eins og manneskja með margþættan persónuleika sem tekur lungann úr ævinni að kynnast, já eða stórbrotin skáldsaga sem hægt er lesa aftur og aftur vegna þess að textinn er ekki allur þar sem hann er séður. Kannski er Indland eins og frummóðirin sjálf, sú sem við bæði óttumst og dáum, skapandi og eyðandi í senn. Það var því alveg hárrétt hjá henni Mette Fanö þarna um árið í Þingholtunum. Maður skreppur varla til útlanda. Hvað þá til Indlands.

 

 

 

Hlín Agnarsdóttir mars 1, 2015 11:00